28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Gunnar Sigurðsson:

Jeg ætla ekki að tala um hina diplomatisku hlið þessa máls, heldur hina praktisku. Jeg sje ekki betur en að þeir menn, sem drepa vilja sendiherrann nú, vegna útgjalda þeirra, sem starfið hefir í för með sjer, sjeu að spara eyrinn en eyða krónunni. Undanfarin ár hafa viðskifti landsmanna verið að mestu bein vörukaup ríkisins við erlendar þjóðir, fyrir milligöngu stjórnar og landsverslunar, og búast má við að svo verði að einhverju leyti í framtíðinni. Sendiherrann ætti því að koma fram sem ræðismaður, samhliða því að vera sendiherra, og annast stórkaup, bæði fyrir ríkið sjálft og einstök fjelög. Jeg er þess fullviss, að með því að hafa duglegan mann til slíkra starfa, myndi vinnast margfaldlega upp, bæði beint og óbeint, kostnaður sá. er af sendiherrastarfinu leiðir.

Jeg skal í þessu sambandi leyfa mjer að benda á síldarverslunina í fyrra. Þá voru á döfinni samningar milli Rússa, Finna, Þjóðverja og jafnframt allra skandinaviskra ríkja. þ. e. a. s. samningar milli einstakra manna og stjórna þessara ríkja um síldarverslunina, en þá höfðum við engan sendimann, er mætt gæti fyrir okkar hönd og tekið þátt í þessum samningum. Hefðum við þá haft duglegan sendiherra, sem hefði haft verslunarþekkingu, eins og núverandi sendiherra, þá er fullvíst, að hagur landsmanna, er þennan atvinnuveg stunduðu, og gjaldþol þeirra væri annað nú en raun ber vitni um. Það má telja víst, að landsmenn hafi tapað tugum, ef ekki hundruðum þúsunda á því, að hafa engan sendiherra. (Bjarni Jónsson: Segjum miljónum!). Það er einmitt þessi hlið málsins, sem ekki má gleymast, þegar rætt er um sendiherra í Kaupmannahöfn.

Þó að ekki sje með lögum skipað, að sendiherrann eigi að koma fram sem ræðismaður, þá efast jeg ekki um, að hann muni einmitt koma fram sem slíkur, þegar þurfa þykir, eins og líka hitt, að hann muni ekki neita skyndiferðum í verslunarerindum, t. d. um alla Skandinavíu og svo til Englands. Þess vegna mun óþarft að setja nein sjerstök ákvæði um þetta í lögin, og er jeg um það sammála hæstv. forsætisráðherra (J. M.).