11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. frsm. fjhn. (S. E.) fór mjög laust yfir það, sem er meginatriðið, að gjöldin eru nú áætluð miklu hærri en áður. Skal jeg aðeins nefna nokkrar tölur úr frv. því, sem hjer liggur fyrir, og fjárlögunum, sem nú gilda, fyrir árin 1920 og 1921, svo að hv. þingdm. geti sjeð muninn. í þessu frv. er ætlað til Holdsveikraspítalans 120 þús. kr., en í fjárlögunum 138 þús. kr. fyrir bæði árin, eða nærri eins hátt nú fyrir eitt og áður var fyrir tvö ár. Geðveikrahælið á Kleppi er með 80 þús. kr. í frv., en 86 í fjárlögunum bæði árin. Vífilsstaðahæli með 112 þús. kr. í frv., en 123 þús. kr. bæði árin í fjárlögunum. Ef borin er saman 14. gr. í frv. við sömu gr. í fjárlögunum, sem nú gilda, þá má sjá, að hún er hœrri nú til eins árs en þar til tveggja. Þetta sýnir, hver geysimunur er á áætlun gjaldanna nú og áður, og jeg fullyrði, að það sje eins í gegn um alt frv. Má t. d. benda á, að dýrtíðaruppbót er alstaðar reiknuð 120%, en nú má búast við því verðfalli, að hún verði talsvert lægri. Væri því óhætt að áætla tekjurnar rífar en áður. Og rjett yfirlit fæst ekki í áætlunina, nema sömu reglu sje fylgt um báðar hliðar. Það er satt, að jeg hefi áður haldið því fram á þingi, að áætla bæri varlega tekjurnar. En jeg lýsti yfir því jafnframt, að það væri vegna þess, að þáverandi stjórn hafði áætlað gjöldin alt of lágt. En þeirri stefnu hefi jeg horfið frá, eins og áður er sýnt.

Mjer skildist, að háttv. frsm. (S. E.) hefði ekki áætlað neinar tekjur af þeim frv., sem hann var á móti. Og á það má minna, að þótt bifreiðaskatturinn eigi að renna í sjerstakan sjóð, þá kemur hann þó til að ljetta heldur undir með ríkissjóði.

Þá gleymir hann því í sambandi við vörutollinn, að kola- og salttollurinn hefir ekki áður runnið beint í ríkissjóð, en nú er búið að færa tapið, sem vinna á upp, til skuldar, og rennur því tollurinn í hann hjer eftir.

Mestur var þó misskilningur háttv. frsm. (S. E.) um tóbakstollinn. Hann nam 1919 704 þús. kr., og var tollurinn hækkaður í ágústmánuði það ár. Er því auðsjeð, að það er nokkuð lágt að áætla hann aðeins 500 þús. kr. þegar sú hækkun gildir alt árið. Það væri alls ekki óvarlegt, þótt hann væri áætlaður 750 þús. kr., og eins og háttv. nefnd hefir áætlað tollinn, er ekkert hlutfall milli hans og til dæmis kaffi- og sykurtollsins.