11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

41. mál, fjárlög 1922

Guðmundur Ólafsson:

Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg er mótfallinn flestum þeim brtt. til hækkunar, sem eru á þessu þskj., 562 en hins vegar skal jeg játa, að jeg er hlyntur þeim orðabreytingum, sem þar eru, og álít, að háttv. fjvn. nái sjer þar best niðri. Annars stóð jeg upp til þess að leiðrjetta misskilning, sem mjer fanst kenna hjá háttv. 1. landsk. þm. (S. F.). Hann komst svo að orði um brtt. um dýrtíðaruppbót til yfirsetukvenna, að nefndin hefði fallið frá að aðhyllast hana, sökum þeirra auknu útgjalda, sem sýslusjóðum væri þar með lögð á herðar. Það var alls ekki þetta, sem vakti fyrir mjer, heldur það, að laun yfirsetukvenna hefðu verið samþykt á sama þingi og öðrum embættismönnum og starfsmönnum var ákveðin dýrtíðaruppbót, og hefðu þá verið talin í alla staði sæmileg, og því varla þörf á að bæta við þau nú. Þótti nefndinni þeim mun síður ástæða til að bæta hjer inn nýrri dýrtíðaruppbót, þar sem dýrtíðaruppbót yfirleitt er nú í hraðri lækkun, og hverfur vonandi brátt úr sögunni.

Þá verð jeg að furða mig á þeim ummælum háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.), að hann kallar það kynlegt eða jafnvel rangt, að yfirsetukonum hefir ekki verið greidd dýrtíðaruppbót, en nú ætlast lögin ekki til, að þær fái uppbót, svo ólöglegt hefði verið að greiða hana. Furðaði jeg mig yfirleitt stórlega á því, hve mjög hann ber yfirsetukonur fyrir brjósti, og bregður þar mjög frá því, sem var um fyrirrennara hans, ef jeg man rjett, sem taldi þær einhverja mestu landplágu í sínu kjördæmi, en það er langt frá, að jeg haldi því fram.