11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

41. mál, fjárlög 1922

Karl Einarsson:

Jeg á 3 brtt. á þskj. 562. Sú fyrsta (IX) er um, að veittar sjeu 40 þús. kr., en ekki 30 þús. kr., til „Þórs“, og að hann því fái sama styrk og í fjáraukalögunum.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta. Jeg hefi áður talað um nauðsynina á þessum styrk, og því óþarfi að endurtaka það hjer. Jeg heyrði það á háttv. frsm. (S. H. K.), að hann var ekki hlyntur till., en jeg á bágt með að skilja afstöðu nefndarinnar í þessu máli.

Brtt. XII.við 18.gr.II, er um að Páli Erlingssyni verði veittar 1500 kr. í stað 1000 kr. Maður þessi er fátækur, en hefir slitið sjer í þarfir landsins. Það eru ekki einungis menn hjeðan úr Reykjavík, sem notið hafa kenslu hans, heldur eru það menn af öllu landinu. Þessi styrkur er því síst of hár, þar eð maðurinn á einnig fyrir aldraðri konu að sjá.

Þá er brtt. XIV., um að ríkið ábyrgist lán fyrir Vestmannaeyjakaupstað. Jeg er þakklátur nefndinni fyrir það, að hún vill styðja þessa tillögu, og jeg skal jafnframt upplýsa það, að verk þetta er eins undirbúið og á Seyðisfirði. Húsið var upphaflega bygt svo stórt, að nú þarf ekki annað en setja vjelina niður. Stöðin er nú orðin of lítil, og ný hús geta ekki fengið rafmagn. í hitt eð fyrra var ákveðið að bæta hundrað hestafla mótor við þann, sem nú er, og var fengin áætlun um það, hvað mótorinn og aðrar breytingar, er gera þurfti, mundi kosta, og reyndist það vera ca. 100 þús. kr. En jeg geri ráð fyrir, að nú mundi þetta fást ódýrara, og ímynda jeg mjer, að þessi upphæð muni nægja. Það, sem gera þarf, er að kaupa mótor og tilheyrandi rafmagnsvjelar, en húsrúmið er þegar til. Auðvitað þarf að breyta kerfinu nokkuð, eins og t. d. að setja sumstaðar gildari þræði, en jeg vona, að deildin samþykki bæði þessa tillögu og eins hinar tvær, sem jeg hefi borið fram.