14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

41. mál, fjárlög 1922

Jón Baldvinsson:

Við 3. umr. fjárlaganna var samþ. hjer í deildinni að heimila stjórninni að ábyrgjast alt að 500,000 kr. lán handa verksmiðjunni Álafossi. Háttv. Ed. færði þessa upphæð niður í 200,000 kr. Hefi jeg nú borið fram brtt., þar sem farið er fram á að fella þessa ábyrgð alveg niður.

Það má vel vera, að þetta sje þarft og gott fyrirtæki, en kröfur þess til ríkissjóðs eru líka nokkuð miklar. Í fyrra var veitt til þess lán úr viðlagasjóði, 100,000 kr., og sýnist það dálítið athugandi, hvort rjett sje að lána svo fje til fyrirtækja einstakra manna. Að vísu er þessi upphæð í 22. gr. fjárlaganna ekki lán, en það sýnist skifta litlu, því að sá, sem ábyrgist fje fyrir annan, má jafnan vera viðbúinn að greiða það. Þykir jafnvel mörgum lakara að ganga í ábyrgð en lána fje, því að þegar fje er lánað, vita menn af hverju tekið er, en sá, sem gengur í ábyrgðina, er andvaralaus oft og einatt, og fellur hún svo ef til vill á hann þegar verst gegnir um fjárhag hans.

Raunar er ætlast til þess, að stjórnin sjái um það, að tryggingar verði nægar, en mikil eign má það vera, sem stendur fyrir 300,000 kr., einkanlega þegar þess er gætt, hve verðlag er reikult nú, og að eignir, sem mjög mikils virði eru í dag, eru jafnvel orðnar mjög lítils virði á morgun. Er því hjer um áhættu við fyrirtæki einstaks manns að ræða, sem ríkissjóður á alls ekki að taka að sjer. Má og jafnframt gæta þess, að hjer er markmiðið fyrst og fremst það, að afla fjár, eins og við flestöll fyrirtæki einstaklinga, og er enganveginn víst, að sá tilgangur samrýmist vel hagsmunum og heill þjóðarinnar. Enn er það athugavert, að stofnendur þessa fyrirtækis reka annan atvinnuveg; mætti svo fara, að þeir yrðu fyrir áfalli þar, og gæti því svo tilverkast, að það bitnaði á þessu fyrirtæki. Svo má og minna á það, að enda þótt ríkisstjórninni sje heimilaður íhlutunarrjettur um stjórn fyrirtækisins, þá er henni samt eigi heimilað að leggja verðlag á framleiðsluvörur verksmiðjunnar, nje hafa afskifti af því, hvernig þær eru unnar. Gæti það þó verið ærið mikilsvert landsmönnum, að stjórn fyrirtækisins rjeði ekki ein um verð og gæði vörunnar, einkum ef svo færi, sem sumir vilja, að bannaður yrði innflutningur á vefnaðarvöru og landsmenn yrðu eingöngu að notast við innlend efni. Gæti því svo farið, að landsmenn yrðu að sæta því verði, sem á er sett, jafnvel þó að ósanngjarnt væri.

En allar þessar ástæður liggja til þess, að jeg tel eigi rjett að hlaupa undir bagga með fyrirtækjum einstakra manna, og þá eigi heldur þessu fyrirtæki. Enda yrðu þeir þá sjálfsagt nokkuð margir, sem til álita gætu komið og þætti fýsilegt að komast upp á það krambúðarloft að láta ríkissjóðinn ábyrgjast fyrir sig fje til fyrirtækja sinna.