19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg vona, að háttv. deildarmenn hafi orðið varir við nál. á þskj. 637 frá fjvn

Eins og þar er tekið fram, varð það að samkomulagi í nefndinni að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir, jafnvel þótt vjer sjeum í ýmsum atriðum óánægðir með þann búning, sem það hefir fengið í Nd. En þar sem þessar breytingar hafa eigi neina fjárhagslega þýðingu fyrir fjárhag landsins í heild sinni, þá þykist jeg mega færa þau skilaboð frá fjvn. þessarar deildar, að hún sje ásátt um að láta við svo búið standa.

Eitt mál, sem lítið hefir verið um rætt, könnumst vjer þó við, að þurfi frekari athugunar við, og það er síðasta aths. við 22. gr., sem inn kom í háttv. Nd. Nefndinni hjer þótti ástæða til þess að gefa á þessu skýringu, og þess vegna er nál. gefið út, svo sem til leiðbeiningar fyrir ríkisstjórnina.

Um þessi togaralán er það að segja, að eins og nú er komið, má segja, að það sje málefni alls landsins. Nú liggja togaraeigendurnir með full hús fiskjar, og er að sjálfsögðu ekki hægt að gera fiskinn að verslunarvöru fyr en einhverntíma í sumar, en hinsvegar eru fallnar á þá bankaskuldir erlendis, af því þá vantar gjaldeyri í útlöndum. Hefði nú verið svo ástatt, að unt hefði verið að færa gjaldeyri til útlanda, þá hefði engin fyrirstaða verið á að fá lán út á fiskinn í bönkunum hjer, og fá það fje yfirflutt, sem þarf til að borga afborganir af skipalánunum. Hjer ræðir því ekki lengur um fjeleysi útgerðarfjelaganna, heldur getuleysi lánstofnana landsins til þess að yfirfæra peninga. Vil jeg biðja háttv. deild að athuga þetta.

Að öðru leyti þótti rjett að taka fram, að lánsheimildin mætti eigi fara fram úr 200 þús. kr., og aðeins ná til fyrstu 200 þús. kr. veðskuldar á hverju skipi. Ríkissjóður á að veita ábyrgð sína gegn fullri tryggingu, en þær tryggingar til ríkissjóðs getum við hugsað okkur á margan hátt.

Ein af þeim tryggingum gæti verið aukið hlutafje fjelaganna sjálfra, og væri æskilegt, að sem mest fengist af því. Líka gæti bankatrygging orðið að liði o. s. frv. Og ennfremur getur stjórnin bannað fjelögunum að greiða hluthöfum arð, að nokkru eða öllu leyti, þangað til þau eru búin að rjetta við að fullu. Yfirleitt verðum við að treysta ríkisstjórninni að setja nánari reglur um, hvernig ábyrgð þessari verður varið, því að slíkt getur verið svo breytilegt, að eigi er unt að setja frekari reglur um það hjer í þinginu. Vonum við, að þannig sje frá þessu gengið, að eigi sje hætta fyrir ríkissjóð að hlaupa hjer undir bagga.

Hinsvegar er ætlast til, að skipaeigendur afborgi lán þetta svo fljótt, sem kringumstæður leyfa. Um það hefir verið deilt, hvort 7000 sterlingspunda skuld mætti hvíla á skipum þessum, auk þessa 200 þús. kr. láns, sem ætlast er til, að ríkissjóður ábyrgist. Já, náttúrlega er til þess ætlast, eða einhvers í þá átt. Uppástungan um þessi 7000 pund sterling mun vera frá bankanum sjálfum, því að þegar búið væri að borga niður að þeirri fjárhæð, ættu skipin ein að vera fulltryggilegt veð, og þá er líka ábyrgð ríkissjóðs úr sögunni. Því ættu þá ekki þessi 7000 pund sterling að mega hvíla á þeim okkar vegna?

Annars getum við ekki sagt meira um þetta, því að brjef frá bankanum til umboðsmanns hans hjer, þessu viðvíkjandi, hefir eigi komist hingað ennþá. En jeg vona, að af því, sem jeg hefi um þetta sagt, geti ekki orkað tvímælis um hvernig ætlast er til að ábyrgð þessi verði notuð. Fjölyrði jeg svo ekki frekar um fjárlögin, en legg það á vald háttv. deildar, hvort hún lætur frv. fara í sameinað þing eða ekki.