19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Aðeins fáein orð. Jeg er hræddur um, að ábyrgðarheimildin til botnvörpuskipaeigendanna reynist þeim lítil hjálp. Umboðsmaður enska bankans hjer hefir talað við mig, og kvað hann þetta enga hjálp verða. En um ábyrgðarheimildina verð jeg að segja það, að jeg álít, að vilji þingsins sje, eftir undirtektunum að dæma, að hjálpa eigi þessum fjelögum, ef auðið er, án þess að leggja ríkissjóð í hættu.

Talað hefir verið um hjer, hve hallinn í fjárlögunum sje mikill, og því er ekki að leyna, að hann er mjög mikill. En því má heldur ekki gleyma, að mikilli upphæð er varið til afborgana eldri skulda, svo að þegar sú upphæð er dregin frá, er hallinn ekki meira en um 1 miljón kr.

Jeg vil taka það fram, að gjöldin hafa verið áætluð á alt annan veg nú en áður, svo að fylsta von er til þess, að þau fari mun minna fram úr áætlun, og mun þetta sannast á sínum tíma. Enn fremur eru ýmsir tekjuliðir talsvert lægra áætlaðir hlutfallslega en áður. Að vísu er erfitt að spá um framtíðina, en jeg geri mjer von um, að ef næsta ár verður meðalár hvað atvinnuvegi snertir, þá rætist sæmilega úr þessu.

Jeg skal geta þess, að jeg sje alls ekki fært að bæta fleiri eða meiri sköttum á þjóðina en þegar hefir verið gert.

Það er tvent, sem jafnan er verið að stritast við í fjárl., og það er: að hafa tekjurnar nógu háar og draga úr gjöldunum. En jeg verð að segja það, að af þessu tvennu er þó ennþá erfiðara að draga úr gjöldunum. Það er eins og svo margir þm. hugsi sem svo: Það munar engu, þótt bætt sje við þessari upphæð, en gá ekki að því, að slíkar fjárhæðir, þótt smáar kunni að vera hver fyrir sig, draga margar samskonar upphæðir á eftir sjer. Enn fremur eru menn ekki nógu varkárir með að setja inn ýmsar byrjunarfjárveitingar, sem svo aukast ár frá ári.

Jeg get ekki tekið undir það með hv. 2. landsk. þm. (S. E.), að Nd. hafi viljað setja fíkjublað yfir tekjuhallann, og tel tekjuáætlunina forsvaranlega. Hitt þykir mjer mikið mein, hversu þingið er ósparsamt. Er það oftast svo, að þeir, sem spara vilja, verða í minni hluta og eru taldir afturhaldsseggir. En það ættu allir að sjá, að voðinn er vís, ef árlega er tekjuhalli í landsreikningunum.