03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg leyfi mjer að vísa til nefndarálits á þingskjali 432 um meðferð og undirbúning þessa máls. Jeg vænti þess, að háttv. deildarmenn hafi fylgst vel með um frv. þetta og borið sig saman um efni þess, því að alllangur tími er síðan það kom fram, og hefir það legið fyrir deildinni alt frá þingbyrjun. Ekkert af skattafrumvörpum þeim, sem legið hafa fyrir þessu þingi, er jafnmargþætt og þetta, ekkert grípur eins inn í hagsmuni almennings og er jafnnærgöngult einstaklingnum. Það er bersýnilegt, að til þess að slík lög og þessi nái tilgangi, verður að gera ráð fyrir allmiklum siðferðilegum þroska gjaldenda og skattanefnda. Það er augljóst, að lögin verða aðeins pappírsgagn, ef þennan þroska vantar. Nefndin hefir fundið til þessa, og það er ekki síst vafinn um það, hvort lögin í þessari mynd næðu tilgangi, sem tafið hefir afgreiðslu málsins.

Það getur einnig verið álitamál mikið, hvernig eigi að haga skattstiganum og ákvæðum þeim, sem lúta að framkvæmd laganna; en þó að reynslan kunni að skera úr á annan veg en ráð er fyrir gert, hefir nefndin þó talið rjettast að samþykkja frv. að mestu óbreytt. Nefndin vill byggja á því, að þeir góðu eiginleikar, sem jeg benti til áður, þegnhollusta og samviskusemi, sjeu til með þjóð vorri og óhætt sje á þá að treysta.

Það hefir verið um það spurt, hve miklar tekjur þessi skattur gæfi, ef frv. yrði samþykt eins og það kemur frá nefndinni. Um það get jeg ekki sagt, og nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að gera glögga áætlun um þetta. Skatthæðin hlýtur að fara eftir framtalinu og því, hvernig gengið verður eftir því af skattanefndum, og ekki síst eftir því, hvernig eignir þær verða metnar, sem nú á að skattleggja og aldrei áður hafa skattskyldar verið. Það er bersýnilegt, að skatturinn verður hærri en ábúðar- og lausafjárskatturinn gamli, en hvort hann nemur 1/2 miljón kr., 1 milj. eða meira, er ómögulegt að ákveða.

Þessi skattur er — hvernig sem reyndin verður — lagður á eftir ákveðnum óskum, sem fram hafa komið um land alt og æ orðið háværari og háværari. Menn hafa viljað draga úr óbeinu sköttunum, sem eru orðnir illa þokkaðir, og koma á beinum sköttum í þess stað. Frv. er fyrsti ávöxtur þessara óska, ef svo má að orði kveða.

Framkvæmdin veltur mest á árverkni skattanefnda, og er ekki hana út fyrirfram, en vænta, að hún verði sæmileg.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 432. Það er ekki svo að skilja, að nefndin hafi ekki haft fleiri brtt. með höndum en þar eru fram komnar, en það varð loks að samkomulagi, að bera ekki fleiri fram.

Nefndin leggur til, að í næstsíðustu málsgrein 3. gr. breytist tölustafurinn 5 í 3. Hún taldi rjett að hafa töluna ekki hærri, því að skattgjaldið minkar þegar skattinum er skift milli fleiri manna. Það hefði mátt hugsa sjer þetta takmark lægra, t. d. 2, en hitt varð þó ofan á.

Næsta brtt. er við 7. gr. Það er undanþága frá almennu reglunni um skattskyldu fjelaga, og fastákveður 6% af gróða, þegar í hlut eiga samvinnufjelög og önnur skyld fjelög, sem starfa til hagsbóta almennings, en ekki í beinu gróðaskyni, fjelög, sem álíta verður rjettast að sjeu skattfrjáls að mestu eða öllu leyti, eins og sveitarsjóðir og líkar stofnanir.

Nefndin ætlast til, að þetta nái einnig til gagnkvæmra ábyrgðarfjelaga, hússtofnstryggingarfjelaga og annara slíkra almenningssjóða.

Þá er brtt. við 9. gr., og lýtur að úrfellingu einnar málsgreinar, sem óþörf er, vegna breytingarinnar við 7. gr.

Þá er 4. brtt. við 11. gr. e. Hún virðist í fljótu bili ekki þýðingarmikil, og lýtur að því að gefa þeim, sem keypt hafa lífsábyrgðir, rjett til að draga iðgjöld sín frá upphæð þeirri, sem skattleggja á. Embættismönnum eru áskilin þessi fríðindi, og er þá sanngjarnt, að aðrir fái að njóta þeirra líka. Þeir, sem líftryggja sig, gera það venjulega ekki sjer til hagsbóta, heldur niðjunum og öðrum, Sem eftir lifa, og verður að líta á slík iðgjöld eins og öryggisgreiðslu í opinberar þarfir, sem kemur þjóðfjelaginu beint eða óbeinlínis að liði.

Þá er 5. brtt. við 13. gr., og geri jeg ráð fyrir, að á hana verði litið misjöfnum augum. Háttv. deildarmönnum eða hæstv. stjórn þykir ef til vill of djúpt tekið í árinni með henni og höggið of stórt skarð í tekjustofninn. Jeg þarf varla að skýra brtt., hún er augljós og skýrir sig sjálf. 200 kr. eru of lágt meðlag með barni, einkum á skólaaldri, og virðist einsætt, að draga verði 300 kr. frá fyrir hvert barn í fóstri.

6. brtt. við 18. gr. lýtur að því að fella undan skattframtali fatnað, og lítur nefndin svo á, að gengið sje of nærri skattþegnum, ef klæðnaður þeirra er skattskyldur gerður. Hjer hefði átt við að fella fleira undan að mínum dómi, en samkomulag náðist ekki um það í nefndinni. Jeg álít jafnvel rjett að fella undan skattframtali minniháttar bókasöfn, sem nauðsynleg eru á hverju heimili, enda mun reyndin verða sú, að þau hækka lítið skattgjaldið.

7. brtt. við 31. gr. er aðeins til málfegrunar, „að viðlögðum drengskap“ kemur í í stað „æru og samvisku“.

8. brtt. við 38. gr. er heldur ekki efnisbreyting.

9. brtt. við 53. gr. má skoða eins og efnisbreytingu. Svo er ákveðið í greininni, að húsbónda skuli skylt að greiða skatt fyrir þá, sem teljast þar til heimilis. Þetta ákvæði getur verið varhugavert. Mönnum er gert að skyldu að greiða skatt fyrir þá, sem erfitt getur verið eða ómögulegt að heimta hann af aftur, og kemur þá greiðslan ómaklega niður á húsráðanda. Lausamenn, húsmenn og allskonar lausingjar dvelja lengri eða styttri tíma á heimilunum og hvarfla til og frá. Ráð þessara lausamanna er yfirleitt mjög á reiki og þeir eigi mjög staðbundnir. — Nefndinni hefir því ekki þótt rjett að leggja þessa skyldu á húsbóndann alment, heldur vill hún, að hver gjaldi þar, sem hann er til heimilis á gjalddaga. Þetta er samkvæmt þeirri reglu, sem gilt hefir undanfarið og virðist hafa reynst vel.

Jeg vil svo ekki fjölyrða þetta frekar að sinni. Mjer gefst ef til vill tækifæri til að taka aftur til máls, og svara þá því, sem andmælt verður.