03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get þakkað háttv. fjhn. fyrir meðferðina á frv. þessu, enda þó að það lægi nokkuð lengi hjá henni, en hún hefir haft mikið að gera og mörgu öðru að sinna, svo að það verður að vera til afsökunar á því, hversu seint frv. kemur frá henni.

Háttv. frsm. (Sv. Ó.) sagði, að frv. þetta væri nærgöngult, og í því mörg ný ákvæði, sem menn kynnu kannske ekki við í upphafi. Jeg játa að vísu, að svo sje í ýmsum ákvæðum, en jeg neita því, að hjer sje gengið lengra eða nær mönnum heldur en tíðkast hefir um skeið í öðrum löndum. Að hver og einn segi sjálfur til og telji fram tekjur sínar, er siður, sem viðgengst alstaðar, og sýnist líka vera það eina rjetta. Það má vera, að önnur ákvæði þyki líka ganga of nærri, t. d. hvað skatturinn er hár, en þó er ekki ætlast til að greiða skatt af öðru en hreinum tekjum, þ. e. af ágóða, og er það mikill munur, hvort greiða á skatt, hvort sem halli er á atvinnurekstrinum eða ekki.

Háttv. frsm. (Sv. Ó.) sagði, að erfitt væri að segja um nú, hvað skattafrv. þetta myndi gefa ríkissjóði í tekjur, og er það satt, en þó held jeg ekki fjarri sanni að áætla þær alt að 1 milj. kr. í hverju meðalári. Í góðu ári ætti þá að vera von um talsvert meiri tekjur; en í vondum árum geta þær að sjálfsögðu farið talsvert niður úr þessari ágiskun.

Um brtt. nefndarinnar hefi jeg lítið að segja. Jeg get fallist á þrjár fyrstu brtt. Með tilliti til skattsins af samvinnufjelögunum vil jeg geta þess, að eftir að frv. var samið og lagt fyrir Alþingi, hafa hjer verið samþykt lög, sem stefna að því að gera samvinnufjelagssjóðina að nokkurskonar almannaeign, og er þá öðru máli að gegna um skatt af þeim.

Í 4. brtt. er aðeins um orðamun að ræða, en enga efnisbreytingu, og finn jeg enga ástæðu til að fjölyrða um hana.

Þá kemur 5. brtt., og þar er um efnisbreytingu að ræða, sem stefnir að því að rýra tekjur ríkissjóðs til muna. Sá frádráttur kemur almenningi til góða, með því að taka part af skattskyldum tekjum allra, og við það tapast mikið fje frá því, sem frv. gerði ráð fyrir. Sjerstaklega nær þetta þó til þeirra, sem kallast mega vel stæðir og hærri tekjur hafa, en snertir einnig þá, sem minna hafa umleikis. En virðist ástæðulaust og ekki rjett að telja frá tvöfalda upphæð hjá hjónum, því að ólíkt ódýrara er fyrir þau að búa saman heldur en á meðan þau eru hvort í sínu lagi. Þau geta miklu fremur lifað saman fyrir 7–800 kr. heldur en hvort í sínu lagi fyrir 500 kr. Jeg get því ekki greitt atkvæði með þessari brtt., en það er ekki af því, að jeg viðurkenni ekki fyllilega, að skemtilegt væri að geta dregið þetta f rá, heldur ræður hitt, að við megum ekki við því, ríkissjóðsins vegna. Þessi frádráttur, samkv. brtt., myndi nema hjá hjónum, sem eiga 6 börn, 2800 krónum, og er það mikið stökk frá því, sem nú á sjer stað.

Að draga fatnað undan skatti er naumast veruleg ástæða til, enda kemur þessi brtt. þeim efnaðri að gagni; þeir eiga meiri föt og þesskonar heldur en þeir fátæku, sem lítið eiga annað en það, sem þeir standa í.

Um 9. brtt. er það að segja, að meiningin með frv.-greininni var sú, að húsbændur ættu að greiða skattinn fyrir hjú þau, sem væru hjá þeim á þeim tíma, er skattskrá var samin. Húsbændurnir eiga að halda eftir af kaupi hjúanna til þess að greiða hinn opinbera skatt. Jeg skal játa, að þetta ákvæði er nokkuð nærgöngult, en jeg sje heldur ekki, að hjá því verði komist, því að oft mun það svo vera, að húsbændurnir vita ekkert um hvert hjúin fara, og getur því valdið miklu vafstri að heimta inn skattinn.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) vildi undanskilja innanstokksmuni og gera þá skattfrjálsa; þar er jeg honum ekki samdóma, enda þótt jeg viðurkenni, að hjá mörgum eru slíkir munir ekki mikils virði. En hjá ríka fólkinu er alt öðru máli að gegna. Þar nemur það stórupphæðum, t. d. hjer í Reykjavík, sem efnamenn verja til að prýða stofur sínar, og á þann hátt geyma þeir fje sitt í dýrum innanhússmunum, og eiga því að rjettu lagi að greiða skatt af því.

Háttv. sami þm. (Þorl. J.) vakti eftirtekt á starfi því, er bíður skattanefnda þegar frv. þetta er orðið að lögum.

Jeg skal fúslega viðurkenna, að þetta verður mikið vandastarf fyrir skattanefndirnar, enda mun verða lagt alt kapp á það að gera þeim starfið sem hægast, bæði með því að gefa út nákvæm eyðublöð, svo og reglur, sem þeim ætti að veitast ljett að fara eftir.

Mjer er það ljóst, að það verður ýmsum erfiðleikum bundið að koma þessum tekjuskatti á hjer, og búa eins vel um hnútana og erlendis, en það verður að koma þessum skatti á, og ef vel er á haldið, mun hann reynast sanngjarnasti og rjettlátasti skatturinn, sem til er.

En ef það skyldi nú sýna sig í reyndinni, að ekki verði hægt að búa við þennan tekjuskatt, sje jeg ekki annað ráð en taka verði upp gamla fyrirkomulagið, lausafjárskattinn, þó að hann sje langtum ósanngjarnari.

Annað mál er það, og á því byggjast vonir mínar, að þegar lausafjárskatturinn verður afnuminn, hljóti öllum bændum að verða ljúfara að greiða þennan tekjuskatt.