28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (J.M.):

Mjer skilst á háttv. þm. Dala. (B. J.), að hann vilji fara fram á það, að sett verði á stofn sjerstök ræðismannsstaða, sem sameinuð verði sendiherrastöðunni. Mjer finst þetta ekki nauðsynlegt. Því það hefir verið svo, og mun þannig verða, að þeir, sem þurfa að láta framkvæma eitthvað sjerstakt fyrir sig í Danmörku í þeim efnum, sem ræðismannshjálp þarf til, snúa sjer til skrifstofu íslenska sendiherrans þar. Auk þess er jeg hræddur um, að ef sjerstök ræðismannsstaða yrði stofnuð, þá mundi hún eftir nokkur ár verða skilin frá sendiherrastöðunni og stofnað þar nýtt embætti. En slíkt hlyti að hafa allmikinn aukinn kostnað í för með sjer. Jeg tel því ekki ráðlegt að hallast að þessari uppástungu háttv. þm. Dala. (B. J.).