03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg ætla aðeins að svara þeim athugasemdum, sem fram hafa komið, að því leyti, sem hæstv. fjrh. (M. G.) er ekki búinn að því.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) gerði athugasemd út af 11. gr., en þeirri athugasemd er hæstv. fjrh. (M. G.) búinn að svara, svo að jeg þarf ekki meira um hana að ræða, og gaf hann skýringu á því, hvers vegna ekki ætti að draga frá skattskyldum tekjum kaup þeirra barna, sem hjá foreldrum vinna og eigi eru sjálf skattskyld. Reglan er að sjálfsögðu rjett, því að kaupið er skattstofn og á að teljast hjá öðruhvoru, foreldri eða barni. Ennfremur gerði háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) athugasemd við 18. gr., um að skattur skyldi leggjast á bókasöfn og listasöfn. Því hefi jeg áður svarað með því, sem jeg tók fram í fyrri ræðu minni, og hefði jeg að vísu kosið, að minni háttar bókasöfn væru undanþegin skatti.

Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að minni háttar bókasöfn, sem ættu að vera og eru nær á hverju heimili, eigi að vera undanþegin skatti, og væri langeðlilegast að miða við einhverja ákveðna fjárhæð, svo sem 200 kr. virði í bókum, því að harla óviðfeldið virðist mjer að skattskylda sálmabók eða húslestrarbækur.

Sami háttv. þm. (Þorl. J.) gerði þá athugasemd við 13. gr., að 1000 kr. frádrátturinn næði aðeins til þess heimilisföður, sem kvæntur væri, en ef hann byggi með bústýru, þá nyti hann aðeins 500 kr. frádráttar, en því er til að svara, að þá dregst kaup hennar frá, sem rekstrarkostnaður búsins. En ef þau búa fjelagsbúi, þá er ekki hægt að koma þessari ívilnun að, jafnvel þótt þau hafi eigi fjölskyldu saman.

Nefndin sá þetta að vísu, en sá sjer ekki fært að stuðla að því, að slíkt lausungarhjónaband yrði mjög alment upp tekið, þótt nú tíðkist það víða, og síst telur hún það verðlaunavert.

Háttv. þm. (Þorl. J.) mintist á það, að starf skattanefnda mundi verða erfitt og vandrækt. Um það er jeg honum alveg sammála. Það verður að minni hyggju erfiðara en nokkurn grunar.

Þá var eitt atriði í ræðu háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), þar sem mjer virtist kenna misskilnings. Virtist mjer hann álíta, að nefndin hefði lagst undir höfuð að athuga frádráttinn, sem 10. gr. fjallar um í seinasta lið, sem sje dagpeninga fyrir þá menn, sem. vinna verk í almennings þarfir fjarri heimili sínu. Háttv. þm. (P. Þ.) gerir ráð fyrir að koma með brtt. um þetta við 3. umr. og vill gera þessa dagpeninga skattskylda. En jeg skal geta þess, að þessi undanþága er gömul og hefir að minsta kosti gilt frá 1877, þótt henni hafi ekki ætíð verið beitt eða alstaðar; orsökin til þess er, að menn hafa sumstaðar misskilið lögin frá 1877.

Rjettmæti þessa ákvæðis liggur í því, að maður, sem vinnur í þarfir þess opinbera fjarri heimili sínu, Vanrækir atvinnu sína eða verk heima fyrir, svo að gera má ráð fyrir, að tekjur hans verði þar af leiðandi rýrari. En hann verður samt sem áður skattskyldur af atvinnunni heima fyrir, eins og hún hefði engin áföll beðið. Háttv. þm. (P. Þ.) tók til dæmis þingmenn. En jeg vil benda honum á það, að þingmenn, sem eru bændur, þurfa að fá mann eða menn til heimilisstarfa og stjórnar í fjarveru sinni, og kaup þeirra manna, ásamt vanhöldum, sem oft munu leiða af fjarveru húsbónda, mun ósjaldan jafngilda dagkaupinu.

Þetta ákvæði um skattundanþágu er því eðlilegt.

Þá var annað atriði, sem háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) mintist á í sambandi við 13. gr. Það var sá frádráttur, sem gert er ráð fyrir vegna ómegðar. Honum fanst nefndin ganga of langt í að draga frá framfærslueyri. Mjer skildist á honum, að hann hallaðist að stjónarfrv. um þetta atriði. En jeg á bágt með að trúa því, ef hann athugar þetta vel og gerir upp búreikninga fyrir sig og granna sína, að hann komist þá að þeirri niðurstöðu, að hægt sje að framfleyta fjölskyldu sómasamlega með minni tilkostnaði en nefndin gerir ráð fyrir, og fráleitt hefir það verið hægt síðustu árin. Það mundi, eftir því, sem mjer hefir skilist, verða þvert á móti, og útkoman fremur sýna of lítinn frádrátt.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) talaði um 6. gr., eða skattstigann yfirleitt, og að því, er mjer virtist, erum við þar alveg sammála. Eins og skattstiginn lítur út ber hann það með sjer, að það er tiltölulega hærri skattur af lágum tekjum en háum, þegar miðað er við það aukna gjaldþol, sem fylgir háu tekjunum, en altaf verður álitamál, hve ört skatturinn eigi að stíga þegar kemur fram úr þurftartekjum, og hjer kemst þó gjaldið allhátt á þeim tekjum, sem ætla má eðlilegar hjá stærri atvinnurekendum, t. d. í 12% þegar tekjurnar eru 40 þúsundir. Um hæstu tekjurnar, sem gefa 25% skatt, verður líklega ekki að ræða.

Skattstigana í 6., 7. og 15. gr. má hugsa sjer á marga vegu, en nefndin sá sjer ekki fært að breyta þeim, eins og vikið er að í nál., en álítur, að reynslan verði að segja til um nokkur ár áður breytt er, þótt að vísu hefði mátt nú þegar fjölga þrepunum í skattstiganum og smækka þau.

Þá var háttv. sami þm. (B. J.) að tala um ákvæði 8. gr., skattskyldar tekjur, sem fljóta af vísindalegri starfsemi. Það verður að kannast við það, að kjör rithöfunda og vísindamanna eru þröng á voru landi og að ákvæði greinarinnar geta komið hjer illa við, því að efnin leyfa oss ekki að sýna þeim rausn. En ef svo er, sem háttv. þm. (B. J.) sagði, að þeir skili þjóðinni án endurgjalds verðmætum verkum sínum, er þeir falla frá, þá má líkt segja um margan kotunginn, sem einskis nýtur af alþjóðarfje, en elur upp vel mannaðan barnahóp, og gefur þannig þjóðfjelaginu allan árangurinn af æfistarfi sínu.

Það er auðvitað ekki hægt að setja í lög svo nákvæm ákvæði, að útiloki alt misrjetti. Athugasemdum háttv. þm. (B. J.) um bókasöfn hefi jeg svarað, er jeg svaraði ræðuháttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.)

Þá komu fram nokkrar athugasemdir við frv. og nál. frá háttv. 4. þín. Reykv. (M. J.), og jeg held, að jeg hafi tekið rjett eftir því, að hann spyrðist fyrir um, hvort nefndin sæi sjer ekki fært að breyta frádráttarákvæðum 13. gr. þannig, að frádrátturinn yrði mismunandi eftir efnum gjaldenda.

Þetta hefir nefndin athugað og ekki sjeð ástæðu til að gera slíka breytingu. Mjer finst eðlilegt, að efnameiri menn fái sama rjett til að draga frá sem aðrir, því að þeir þurfa jafnmikið til framfæris og hinir. En þegar framfærslueyrir er frá dreginn, kemur að því, að efnamennirnir þurfa að greiða hlutfallslega meira, og er því ekkert órjettlæti í þessu. Þetta er auðveldari aðferð en hin, að minka frádráttinn eftir því, sem efni manna aukast.

Þá þótti háttv. þm. (M. J.) eðlilegt, að frádrátturinn færi eftir dýrtíðinni, og minkaði með henni eða ykist. Jeg er sammála honum um, að þetta væri æskilegt. en jeg held, að erfitt verði að framkvæma það. Við lifum líka allir í þeirri trú, að dýrtíðinni fari að ljetta af, og sje þá ekki þörf á þessu fyrirkomulagi.

Þá mintist háttv. þm. (M. J.) á það, að það væri að gefa með annari hendinni en taka með hinni, að skattleggja þá menn, er taka laun sín úr ríkissjóði. Þetta er satt að vísu, en það kemur í raun rjettri í sama stað niður fyrir ríkissjóð, hvort launin eru lækkuð að því er skattinum nemur, eða höfð hærri og skatturinn krafinn, en síðari aðferðin er gömul og góð og miklu eðlilegri.

Jeg held líka, að embættismennirnir hafi gott af því að finna til þess eins og aðrir, að þeir bera og eiga að bera byrðar þjóðfjelagsins. Þeim mun þá skiljast betur, að þeir eru hluti úr heildinni og samvaxnir henni. Auk þess má benda á það, að embættismenn hafa oft aðrar tekjur en laun sín, og verður að ná til þeirra eftir sem áður.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) og samvinnufjelögunum. Jeg held, að okkur skilji ekki mikið, og þurfum við því varla að deila lengi. Í fjhn. hefir okkur yfirleitt samið vel, þótt ekki gætum við orðið till. að öllu sammála. Jeg get fallist á, að ástæður þær, sem fyrir honum vöktu, sjeu eðlilegar, en jeg held, að nokkuð einhliða sje litið á það mál. Stofnsjóði samvinnufjelaganna ætti ekki að skattskylda, og tekjurnar af þeim, sem til fjelagsmanna renna, eru eigi annað en bústekjur þeirra. En hv. þm. (Jak. M.) heldur því fram, að skiftingin milli fjelagsmanna rýri skattinn ótilhlýðilega, með því, að skatturinn dreifist á fleiri og verði á lægri þrepum skattstigans. Þetta er að nokkru leyti rjett. En þegar þess er gætt, að þessi úthlutun gerir fjelagsmenn færari um að bera skattinn, bæði þennan og aðra, styrkir og styður gjaldþegnana í hvívetna, að fjelagsskapurinn er til almenningsheilla, virðist ekki ósanngjarnlegt að ívilna honum að nokkru um skattinn.

Ívilnunin kemur líklega þjóðfjelaginu að meira liði með þessu móti heldur en dálítil skattaaukning við að hleypa sjóðunum fortakslaust undir ákvæði 7. gr.

Annað þarf jeg ekki að segja. Háttv. þm. (Jak. M.) hefir lýst því yfir, að hann sje fjelagsskap þessum hlyntur, og er það vel, og okkur greinir aðeins á um aðferðir, en tæpast um efni.