07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Við 2. umr. þessa máls gerði jeg dálitlar athugasemdir við skattafrv. þetta. í samræmi við þær athugasemdir er brtt. á þskj. 477 komin fram. En það atvikaðist nú svo óheppilega, að brtt. komst ekki rjett á pappírinn, heldur fjell úr henni eitt atriði, sem máli skiftir. En jeg hefi nú sjeð um, að úr þessu verði bætt, og vænti þess, að hæstv. forseti leggi mjer liðsinni sitt með undanþágu frá þingsköpum, þegar þar að kemur.

Eins og brtt. er hjer á þskj. 477, fer hún fram á, að skattfrjálsa upphæðin, 500 krónur og 1000 krónur, skuli, meðan dýrtíð ríkir, hækka í sama hlutfalli og laun starfsmanna ríkisins, en sú takmörkun átti að vera á því, en hefir fallið niður, að þetta skuli aðeins ná til tekna undir 10 þús. kr. Hærri tekjur aftur á móti vil jeg ekki skerða í þessu efni, svo að ríkissjóður njóti fulls tekjuskatts af því, eins og í frv. er gert ráð fyrir. Tilgangur minn er aðeins sá að bæta úr því, sem mjer finst of nærri gengið þeim tekjuminni og fátækari gjaldþegnum með frv. þessu.