07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Mjer þykir það engin furða, þótt fram hafi komið margar brtt. við þetta frv., því að það snertir marga og nokkuð margvíslega, eins og tekið var fram við 2. umr. málsins. Það grípur djúpt inn í hagi einstakra þjóð fjelagsborgara, svo þeir finna nú meira til skattskyldunnar en áður. Jeg hafði þó ekki vænst þess, að svona margar brtt. kæmu fram. Yfirleitt ganga þær allar í þá átt að ljetta skattakvaðirnar, og benda til þess, að frv. sje nokkuð nærgöngult. Auðvitað eru þær nokkuð misjafnar að efni og innihaldi, og væri jeg ekki bundinn við fjhn. með atkvæði mitt, gæti jeg ef til vill horfið að sumum þeirra, en nefndin hefir orðið að bræða svo margt til samkomulags af þessu, sem hreyft er við, að ilt er frá að víkja.

Þá skal jeg fyrst víkja að brtt. á þskj. 503, frá þm. A.-Sk. (Þ. J.), þm. Borgf. (P. O.) og 2. þm. Skagf. (J. S.). Fyrsta brtt. á þessu þskj. er við 11. gr. Hv. flm. vilja breyta því ákvæði greinarinnar, að kaup barns, sem vinnur hjá foreldrum sínum, dragist ekki frá skattskyldu fje foreldris, ef það telur ekki fram tekjur sjer í lagi. En mjer finst þetta ákvæði 11. greinar í alla staði eðlilegt. Frádráttur á kaupi barna, sem vinna í heimahúsum, er eftir anda laganna óeðlilegur, ef þau telja ekki fram til skatts. Því að upphæð sú, sem þannig hverfur undan skattskyldu húsföður, hverfur þá jafnframt algerlega undan skatti, en það væri ekki rjettlátt, borið saman við aðra, sem skattinn greiða.

Mjer finst sama máli gegna um kaup barns og kaup húsföður, sem eigi má telja til rekstrarkostnaðar bús. Af kaupi barnsins auðgast annaðhvort bú húsföður eða barnið sjálft, en þar er skattstofn óskiftur.

Önnur brtt. á sama þskj. er við 13. gr. Brtt. fer fram á það, að manni og konu, sem búa saman, en eru ógift, sje heimilt að hafa 1000 krónur skattfrjálsar, sem væru þau hjón. Mjer fyndist þetta ekki svo óeðlilegt að vísu, ef þau ættu fyrir fjölskyldu að sjá. En annars hefi jeg svarað þessu við 2. umr., og svara því eins nú, að mjer finst ekki rjett að ala upp í mönnum hvöt til slíkrar sambúðar með sjerstöku skattfrelsi, og ekki er það í anda hjúskaparlöggjafarinnar.

Þriðja brtt. á sama þskj. er við 29. gr., og lýtur hún að kaupgjaldi skattanefndar. Brtt. þessi skiftir litlu máli og hefir enga róttæka þýðingu, og sje jeg enga ástæðu til að fjölyrða um hana hjer.

Þá er fjórða brtt. á þessu sama þskj. um það að fella 43. gr. burtu. En hún gerir húsráðendum að skyldu að greiða eignar- og tekjuskatt fyrir gjaldskylda menn, sem heimili eiga hjá þeim. Háttv. flm. gat þess í ræðu sinni, að svo gæti hæglega farið, að þetta leiddi til þess, að lögtak lenti á húsráðanda, ef heimilismaðurinn reyndist ófær til að inna skattinn af hendi.

Þetta er nú nánast lögfræðilegt atriði, sem jeg skal ekki fara út í hjer, en eftir því, sem lögtak hefir verið framkvæmt hingað til, geri jeg ekki ráð fyrir, að slíkt geti komið til nokkurra mála. Ákvæðið er aðeins sett til þess að ljetta innheimtuna, en ekki meiningin að færa gjaldskylduna af heimilismanninum yfir á húsráðanda. Jeg get ekki sannfærst af orðum háttv. flm. (Þorl. J.) um, að þörf sje á að fella greinina burt, en nefndin hefir vikið greininni lítið eitt til frá upphaflegum búningi.***

Þá er fimta brtt. á þessu þskj., og er hún um það að fella 52. gr. niður, en í henni er ákvæði um það, að hækka megi eða lækka tekjuskatt fyrir eitt ár í senn með ákvæði í fjárlögum. Þessu ákvæði hefir verið haldið í sumum frv., en slept í sumum. Jeg veit ekki hvernig því reiðir af í frv. þeim, sem enn eru á leiðinni, en nefndin vildi ekki leggja til að sleppa því hjer. Fjhn. getur ekki fallist á þessa brtt., og yfirleitt engar af þeim brtt., sem nú hefi jeg minst á og athugað nokkuð.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) á þskj. 474. Hún er við d.-Iiðinn í 10. gr. Þar eru dagpeningar manna, sem verða að vera fjarverandi um stundarsakir frá heimilum sínum vegna starfa í almennings þarfir, ekki taldir til skattskyldra tekna. En hann vill láta fella þá niður úr gr.

Brtt. háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) hefir komið áður til umr. hjer, og sagði jeg þá skoðun mína á henni. Nú hefir nefndin í heild sinni heldur ekki sjeð sjer fært að taka hana til greina, þótt hún viðurkenni annars sanngirni hennar, ef hægt væri að þræða þar heppilegan meðalveg, sem þó mun ekki unt í framkvæmdinni, og leyfi jeg mjer annars að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt um málið.

Þá er brtt. á þskj. 472, frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), og gerir hún ráð fyrir alldjúptækum breytingum á frv., þar sem um er að ræða það, að frá skattskyldum tekjum megi draga arð af innborguðu hultafje í hlutafjelögum. Hv. flm. (J. Þ.) ætlast til þess, að þetta verði til að koma á samræmi við annað svipað ákvæði, sem hugsað er að koma í gildi fyrir samvinnufjelögin. Jeg kannast að vísu við það, að að sumu leyti komist á samræmi milli fjelaganna með þessari till., en með því er alls ekki sagt, að það eigi að vera samræmi milli þeirra. Hjer er í rauninni um tvenns konar gagnólík fjelög að ræða, og þess vegna eiga ákvæðin um skattskylduna líka að vera önnur. Samvinnufjelögin leggja upp óskiftilegan sjóð, sem er svo að segja almennings eign, en það gera hlutafjelögin ekki að öllum jafnaði. Þau eru háð hluthöfum sínum. Svo vinna þessi fjelög á alt annan veg og á alt öðrum grundvelli. Samvinnufjelögin vinna að því að bæta hagsmuni almennings, en hlutafjelögin vinna fyrir einstaklinginn. Af þessum og ýmsum fleiri ástæðum er það, að fjárhagsnefnd hefir ekki getað gengið að þessari brtt.

Önnur brtt. á sama þskj. fer fram á það að fella niður 23. gr., þar sem sagt er að skipa skuli á sjerstakan hátt tekju- og eignarskatti í Reykjavík. Þegar háttv. flm. (J. Þ.) gerði grein fyrir ástæðum sínum fyrir þessari brtt., verð jeg að segja, að jeg fjelst með sjálfum mjer á það, að margt mælti með brtt. Í rauninni er það tæpast hugsanlegt að hafa sama skipulag á þessu í Reykjavík og t. d. í strjálbygðum hjeruðum úti um land. En hins vegar sje jeg ekki, að í 23. gr. þurfi að felast nein ögrun til bæjarstjórnarinnar, um að neyða hana til þess, sem henni væri ógeðfelt í þessu efni. 23. gr. er því í sjálfu sjer ofurmeinlaus, þótt önnur skipun gæti kannske verið betri, og þess vegna hefir nefndin heldur ekki getað fallist á hana, nje álitið nauðsynlegar aðrar brtt. á sama þskj., enda eru hinar aðeins afleiðing hennar, sem jeg hefi þegar talað um, og skal jeg því ekki fjölyrða um þær.

Þá er brtt. á þskj. 410, frá háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), um það, að undanskilja skatti allar tekjur samvinnufjelaganna, aðrar en af viðskiftum utanfjelagsmanna. Þetta atriði hafði áður verið rætt í nefndinni, og bæði nefndarmönnum og háttv. deild mun fullkunnugt um afstöðu mína til þess máls og um það, að við í meiri hlutanum vorum fúsir til að taka þetta ákvæði upp. En af ýmsum ástæðum, sem hjer þarf ekki að rekja, en má vísa um til umr., sem áður hafa fram farið í sambandi við samvinnufrv., varð það ofan á að taka ekki upp þetta ákvæði, en veita nokkrar aðrar ívilnanir í staðinn. Þar sem álíta verður nú, að fengið hafi verið og ákveðið samkomulag um þá skipun, hefir nefndin nú ekki getað tekið upp þessa brtt., enda mundi þá þurfa að gera gagngerðar breytingar á ýmsum öðrum atriðum laganna; sjerstaklega yrði þá ósamræmi í 7. og 9. gr. Og þó að jeg fyrir mitt leyti sje samþykkur efni brtt., verð jeg að líta svo á, sem sæmilega sje búið um hag samvinnufjelaganna með þeim ákvæðum, sem þegar eru samþykt.

Þá er brtt. á þskj. 517, frá háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.), um hækkun tekju- og eignarskattsins um 35%, og hefir háttv. flm. áður talað um það mál í öðru sambandi. En hækkunin er svo gífurleg, að tæpast getur komið til mála að samþykkja hana, enda mundi hún koma mjög hart niður á hinum smærri gjaldendum. Nefndin getur því ekki mælt með þessari brtt. nú og álítur, að ekki eigi að samþykkja hana nú, hvað sem seinna kann að verða ofan á um þetta efni.

Þá er brtt. á þskj. 497, og má segja um hana, að traustlega sje um hana búið í upphafinu, þar sem að henni standa fjórir flutningsmenn. Hins vegar hafði jeg ekki gott næði til þess að hlusta á framsöguna. Brtt. gerir þó ráð fyrir því, að í stað 15. gr. komi ný grein, og held jeg að hún yrði ekki auðveld í framkvæmdinni, þótt hún gæti annars verið sanngjörn í sjálfu sjer. Erfiðleikarnir á því að skattleggja þannig vaxtaberandi innieign með 6% af vöxtum eru ýmsir, og hefir nefndin þess vegna ekki getað mælt með brtt.