07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki eyða mörgum orðum til þess að verja brtt. mína á þskj. 525. Háttv. frsm. (Sv. Ó.) var henni ekki fjandsamlegur, sem vænta mátti eftir fyrri orðum hans, enda býst jeg heldur ekki við, að hægt sje, frá sanngirninnar sjónarmiði, að vera henni andvígur.

Það var þá líka frá alt öðrum bæjardyrum, sem hæstv. fjrh. (M. G.) leit á hana þeim fjandskaparaugum, sem raun er á orðin. Það er auðvitað, að hún rýrir tekjurnar af frv. En þá mætti alveg með sama rjetti segja, að stjórnin hafi rýrt tekjurnar af frv. með því að ákveða ekki allan skattstigann hærri. Hjer er um meðalhóf að ræða, sem verður að þræða, hlutfall milli gjaldþols manna og teknaþarfa ríkissjóðs, og brtt. mín er ekki stíluð út frá því að ekki sje nóg tekjuþörfin, heldur út frá hinu, að gjaldþol smámennanna sje býsna takmarkað. Og þá þykir mjer hæstv. fjrh. (M. G.) fara nokkuð frekt í sakirnar, þegar hann býst til að taka þetta frv. út og önnur fleiri, ef brtt. mín verður samþ., og undarleg ráðstöfun, því að ekki nær hann fremur í einhleypingana sína með gömlu tekjuskattslögunum. Annars skal jeg ekki þrátta við hæstv. fjrh. (M. G.) um það, því að hann er sjálfráður um það, hvort hann tekur frv. aftur, ef brtt. mín verður samþ. Já, hann mætti meira að segja fyrir mjer leggja niður völd út af því.

Jeg skal annars ekki orðlengja þetta frekar, en bara segja enn: Ef skattfrjálsu upphæðirnar, 500 og 1000 kr., eru rjettar og heppilegar, þegar miðað er við lengri tíma, og það hljóta slík lög að gera, — þá er líka rjettlátt að leggja á þær einhverja hækkun á slíkum tímum sem nú, þegar þessar upphæðir eru í raun rjettri ekki nema 200 og 400 krónur. Þetta sný jeg ekki aftur með. — Hvað sem hæstv. fjrh. (M. G. ) segir um, að helmingur gjaldþegna komist undan gjaldi, þá snertir það ekkert þetta mál. Ef þeir hafa svo lágar tekjur nú, þá fara þær, er dýrtíð linnir, hvort sem er niður úr þessu takmarki, og hví mega þær þá ekki fara það nú alt eins? Og þetta um „margt smátt og eitt stórt“, sem ávalt klingir hjer, það fer nú að verða þreytandi, en það er býsna villandi, þegar hv. fjrh. (M.G.) talar um helming gjaldendanna, alveg eins og hann ætlist til, að það skiljist svo, að helmingur skattsins tapist. En nú er því í raun og veru svo varið, að af þessum gjöldum, sem tapast mundu, þarf um 150 gjaldendur á móti einum, sem hefir um 20000 kr. tekjur, og enginn þessara 150 er fær um að borga skattinn á móts við þennan eina. Ef ná þarf tekjum, og það efast enginn um, þá er miklu nær að herða ofurlítið enn á hæstu tekjunum, en ekki nurla skildinga ekkjunnar fátæku.

Jeg nefndi ekki verðstuðul í brtt. minni vegna þess, að óvíst er, að því fyrirkomulagi verði áfram haldið að bæta upp eftir verðstuðli, en tekin einhver önnur aðferð.

Jeg mótmæli algerlega þeirri aðdróttun, að jeg sje málsvari embættismanna, eða hafi gefið tilefni til slíkra ummæla frá hæstv. fjrh. (M. G.) með framkomu minni hjer. Hann miðar það sennilega við það, að jeg andmælti lögleysunni, sem hjer var framin með lækkun samningsbundinnar greiðslu, og hefði jeg gert það jafnt hvort embættismenn eða aðrir hefðu átt í hlut. Jeg miðaði þessar 10 þús. kr. heldur alls ekki við laun embættismanna, því að þá hefði jeg nefnt 9500, en jeg miðaði það við það, að þegar komið væri yfir 10 þús. kr. væri ekki ástæða til að draga af mönnum eða hlífa við fullum skatti.

Brtt. miðar að því einu að leitast við að ná þar í fje, sem fje er til, en ekki þrífa bitann frá munni fátæklings, þó að fjárþörf sje í ríkissjóð. Jeg veit, að þar er fjárskortur, en það er víðar fjárþröng nú.