07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg átti von á, að það mundi þjóta eitthvað í skjánum hjá háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) út af undirtektum mínum undir brtt. hans. En þennan hvalablástur tel jeg mig litlu skifta. Jeg vissi fyr, að hann vill gjarna, að jeg segi af mjer embætti, en mun ekki um það hirða, þótt hann flaggi með því. Jeg endurtek það, að ef till. hans verður samþykt, tek jeg frv. aftur. Hans brtt. er svo hvatskeytleg og ber vott um svo mikið ábyrgðarleysi í fjármálum ríkissjóðs, að hún má ekki verða samþykt. Háttv. þm. (M. J.) játar sjálfur, að till. muni valda því, að gjaldendum fækki um helming, og væri það nú kann ske fyrir sig, en verra er hitt, að hún veldur því, að sumir þeirra gjaldenda falla burt, sem síst skyldi.

Háttv. þm. (M. J.) kvaðst koma með þessa brtt. í nafni mannúðarinnar og prjedikaði talsvert um það, sem og eigi var óviðeigandi af þessum fyrverandi kennimanni. en hann gleymdi aðeins því, að í rann og veru eru allir skattar ómannúðarlegir, en tekjuskattur síst, svo að hann hefði átt að halda þessa ræðu við annað tækifæri. Og ef jeg vildi semja mig að háttum lýðskrumara, skyldi jeg halda miklu hjartnæmari ræðu en háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) gerði, en jeg mundi gera það út af t. d. sykurtolli, sem verður að greiðast jafnt af ríkum og fátækum, og er ómissandi nauðsynjavara, en jeg mundi ekki setja slíka ræðu í samband við tekjuskattinn, því að það er viðurkent, að hann er sanngjarnastur allra skatta.

Hv. þm. (M. J.) vildi taka háan skatt af háu tekjunum, en hverjir og hversu margir verða það, sem munu hafa háar tekjur næstu árin? Getur háttv. þm. (M. J.) svarað því? Jeg hygg ekki, og hvar á þá ríkissjóður að taka fje til sinna greiðslna, því að vart mun háttv. þm. (M. J.) gefa eftir laun sín. Jeg býst við, að háttv. þm. (M. J.) vilji þá láta taka lán til þess að jafna hallann, en það er barnalegt úrræði, því að það getur þó ekki til lengdar orðið úrræðið að taka lán á lán ofan, því að það dregur að skuldadögum.

Háttv. þm. (M. J.) reiddist af því, að jeg kallaði hann málsvara embættismanna. Hann um það, en jeg tek ekkert aftur af því. er jeg sagði.