07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Þorgilsson:

Mig furðar á því, hvað eins skýrt erindi og brtt. á þskj. 497 getur skolast fyrir háttv. frsm. fjhn. (Sv. Ó.). Hann sagðist ekki hafa tekið eftir því, sem mælti með till. Ef hann hefir lesið till., þá hlýtur hann þó að hafa fengið skýringu á þessu.

Enn fremur sagði hann, að erfitt væri fyrir skattanefndir úti um land að leita sjer upplýsinga suður í löndum um inn eignir manna í bönkum og sparisjóðum. Þetta er ekki rjett skilið hjá háttv. þm., því að eftir brtt. hafa skattanefndir ekkert að gera með það að vita um eignir manna í sjóðum. Till. ber með sjer, að það eru stjórnir banka og sparisjóða, sem eiga að reikna út skatt af inneignum manna, og skila honum til ríkissjóðs.

Jeg tók það fram í framsöguræðu minni, að oft væri erfitt að fá hið rjetta og sanna að vita í þessu efni, því að það væri ekki óalgengt, að menn legðu fje inn í sparisjóði undir gervinöfnum.

Það er því höfuðkostur till. að losa skattanefndir við þá erfiðleika, að leita að því, sem þær ef til vill geta ekki fundið. Það er líka valt að ætla, að menn segi rjett til um slíkar eignir; mönnum er þetta viðkvæmt mál, enda þótt þeir sjeu fúsir til að greiða skattinn.

Hæstv. fjrh. (M. G.) fann brtt. það til foráttu, að hætt væri við því, að menn flyttu inneignir sínar til útlanda, til að fá þær skattfrjálsar. Þetta get jeg ekki fallist hjá hæstv. fjrh. (M. G.), því að eftir því sem skattar eru þar í öðrum greinum, þá býst jeg ekki við, að peningainneignir sjeu skattfrjálsar. En ef til slíks kæmi, þá gefur frv. engu síður en brtt. ástæðu til þess. Jeg verð því að álíta þessa mótbáru einskis virði.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) kvaðst hafa athugað till. og fundið þar fleiri galla en kosti. Meðal annars sagði hann, að upphæðir, sem væru í sjóðum, gætu verið villandi, því að þær gætu verið að láni. En þar hefir víst háttv. þm. (Jak. M.) átt við hlaupareikninga, en vextir af því fje eru ekki svo miklir, að lítill hundraðshluti yrði mikil upphæð, enda þeim mönnum, sem þannig velta fje, sjaldnast vorkent að greiða skatta, enda eru það venjulega umsvifameiri starfsmenn.

Það, sem vakir fyrir okkur till.-mönnum, er það, að auðveldara sje að innkalla skattinn og komast hjá því að þurfa að grenslast eftir inneignum einstakra manna.

Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) reiknaði allmörg dæmi og fann það út, að 1% gjald væri of hátt eða lágt í samræmi við frv. Jeg skal viðurkenna, að það er einn galli á till., og það er, að stigbreyting hefði átt að vera á gjaldi af arði inneigna. En það er hægt að samþykkja till. fyrir því hjer í háttv. deild, því að það má fá því breytt í Ed. Þetta þyrfti að reikna í 5–6 stigum.

Af 100.000 kr. inneign í banka fást 5000 kr. í árstekjur með 5% ársvöxtum. Og eftir okkar 6% afgjaldi yrði þá skatturinn 300 kr. Þetta er því dálítið lægra en það yrði eftir frv. En það er vandalaust að koma því í samræmi við frv.

Það hefir verið sagt, að það væri ekki eftir anda frv. að gjalda skatt af inneignum alt upp að 5000 kr.

Jeg álít, að það sje meiningarlaust að hafa slíkt fje skattfrjálst. Við skulum taka t. d. einhleypa menn, sem hefðu fyrir engum að sjá og hefðu erft fje, sem lægi á vöxtum. Væri sanngjarnt að láta þá vera skattfrjálsa, en láta mann, sem á húskofa, gjalda skatt, þótt kofinn sje margveðsettur, svo að engin eign sje í honum fram yfir áhvílandi veðskuldir.

Jeg fjölyrði svo ekki meira um þetta mál, en vona, að háttv. deild samþykki þessa till., enda þótt þessi eini galli sje á henni, því að eins og jeg benti á áðan, getur háttv. Ed. ráðið bót á því, með því að hafa hundraðsgjaldið hærra af háu vöxtunum en þeim lægri, svo að í nákvæmu samræmi væri við eignartekjufrv.