07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Jónsson:

Jeg vildi aðeins leiðrjetta það, sem háttv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.) hefir misskilið í ræðu minni. Jeg sagði, að till. gæti orðið til þess, að menn flyttu burt eignir sínar, og átti jeg þá við það, að meðan eignirnar væru svo litlar, að þær næðu ekki skatthæð, þá vildu menn heldur vaxta þær annarsstaðar, meðan þær væru að ná skatthæðinni, einkum ef um margar og smáar upphæðir væri að ræða.

Þá er annað atriði. Jeg sagði, að mönnum væri gefið tilefni til þess að fela fje sitt. Auðvitað átti jeg ekki við það, að mönnum væri bönnuð öll viðleitni til þess að grenslast eftir því, heldur að þeim væri gerð viðleitnin svo erfið, að t. d. sveitarstjórnir gætu ef til vill engu náð af stóreignum. Hins vegar er tæplega við því að búast, að menn geri mikið að því að skýra rangt frá, þar sem refsiákvæðin eru svo há, að þau geta numið tífaldri skattupphæðinni, sem á að borga.

Orð háttv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.) um útflutningsgjaldið skildi jeg alls ekki. Hann sagði, að jeg hefði sagt, að fæstir framleiðendur greiddu útflutningsgjald. Þetta hefi jeg aldrei sagt. (E. Þ.: Jeg hefi þá misskilið háttv. þm.). Jeg sagði, að það mundu verða fæstir, sem greiddu tekjuskatt.