18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Það er sannast að segja, að fjárhagsnefndinni var og er þetta frv. mjög óskapfelt, og að nærri lá, að hún legðist alveg á móti því. Það, sem einkum hneykslaði nefndina, var það, að samkvæmt frv. lækkar skattur á hærri gjaldendum frá því, sem nú er, en hækkar á lægri tekjum, og telur nefndin, eða að minsta kosti meiri hluti hennar, þetta fara alveg í öfuga átt.

Aðfinslur nefndarinnar á þskj. 626 eru flestar af þessum rótum runnar. Nefndin getur ekki sætt sig við þetta nema til bráðabirgða, og sættir sig við það til bráðabirgða aðeins vegna hinnar knýjandi tekjuþarfar ríkissjóðs, því að líklegt er, að hann fái nokkru meiri tekjur af þessu frv. en gildandi lögum, því að bæði er líklegt, að lítið verði um stórgróða hjá einstaklingum næsta ár, og því tiltölulega lítið af þeim legg að skafa, og að skatturinn hækkar á lægri tekjunum eins og fyr er sagt, það er á öllum þorra skattþegna.

Jafnframt hækkar skatturinn mjög á hlutafjelagagróða. Um 7. gr., sem ákveður þann skatt, eru skiftar skoðanir í nefndinni. Auðsætt er, að sá skattur er miklu hærri á háum tekjum en skattur, sem á er lagður eftir 6. gr., og að í því er ósamræmi. Vildu sumir nefndarmenn lækka skattinn á hlutafjelögum, og færa til samræmis við aðalskattinn (samkvæmt 6. gr) á þann hátt. — En fyrir sjálfan mig skal jeg geta þess, að jeg tel skattreglu 7. gr. góða, og rjettu leiðina þá að færa 6. gr. í samræmi við hana.

Ákvæði frv. um framtal tekna og skattmat tel jeg líka til bóta, og sömuleiðis hugmyndina um tvöfaldan skatt á eignum, er kemur fram bæði sem tekjuskattur og eignarskattur. Því að vitanlega er miklu minna fyrir eignartekjunum haft. — Hvort eignarskatturinn er sanngjarnlega ákveðinn eða ekki hefi jeg á hinn bóginn ekki athugað, svo að jeg vilji nú um það dæma.

Tveir nefndarmennirnir hafa komið með brtt. á þskj. 627, sem jeg býst við, að meiri hluti nefndarinnar verði á móti. Að vísu var jeg sjálfur með samskonar brtt. við frv. um lestagjald og fasteignaskatt, en sú ástæða var til þess, að mjer líkuðu þeir skattar illa, eins og þeir komu fram.

Í skattalögum, sem vel eru grundvölluð, álít jeg þetta ákvæði gott og hentugt til að komast hjá tíðum, fyrirhafnarsömum lagabreytingum. Og þó að mjer líki ekki þetta frv. nú, vona jeg, að það færist áður en langt um líður í það horf, að vel verði við unandi. Jeg vænti þess, að hæstv. fjrh. (M. G.) leggist ekki á móti brtt. á þskj. 626, og sjái, að nefndin hefir sýnt mikla tilhliðrun í málinu, miðað við skoðanir hennar á því yfirleitt.