18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal strax geta þess, út af orðum háttv. þm. Vestm. (K. E.), að húsaskatturinn kemur ekki þessu frv. við, því að hann er innifalinn í fasteignaskattinum. Háttv. þm. (K. E.) hefir því alveg misskilið, hvað hjer er um að ræða.

Út af því, að háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) hjelt því fram, að munurinn á skatti væri of mikill á hlutafjelögum og einstökum mönnum, þá vil jeg upplýsa það, að sú stefna er nú mjög að ryðja sjer til rúms að leggja tiltölulega hærri skatt á fjelög en einstaka menn, því að fjelögin finna minna til hárra skatta en einstaklingarnir.

Það er satt, að ýms hlutafjelög hjer eru illa stödd nú, og því er hart að leggja á þau mikinn skatt. En þetta verður samt rjettlátasti skatturinn, því að ef fjelögin tapa, þá verður skatturinn enginn. Og sem dæmi upp á það, að þessi skattur er t. d. rjettlátari en vörutollur, má nefna það, að togararnir verða að greiða háan vörutoll af kolum, hvort sem þeir græða eða tapa á útgerðinni. En tapi þeir á henni, þá þurfa þeir engan tekjuskatt að borga.

Um brtt. á þskj. 627 get jeg tekið það fram, að jeg legg ekki neina sjerstaka áherslu á, að hún verði feld. En jeg get ekki samsint það, að 52. gr. frv. komi neinu losi á skattalöggjöfina, þó að hún verði samþykt eins og hún er nú í frv. Jeg vil miklu frekar halda hinu fram, að hún sje góð, til þess að halda í hemilinn á fjáreyðslunni, en annars læt jeg mjer það í ljettu rúmi liggja, hvort hún verður samþykt eða ekki.

Mig skal ekki undra, þó að í háttv. fjhn. sjeu allsundurleitar skoðanir um þetta frv., þar sem í nefndarálitinu segir, að sumir sjeu á móti mikilli stighækkun beinna skatta og háum beinum sköttum yfirleitt, en aðrir vilji helst hafa alla skatta beina og á þann hátt fyrir komið, að tekjuskattur sje aðalskattur og þungamiðja í skattakerfi ríkisins. Það er því ekki undarlegt, þótt ekki hafi orðið gott samkomulag í nefndinni um þetta frv., þar sem svona gagnstæðar skoðanir hafa. verið. Og það mun öllum auðsætt, að ómögulegt er að búa til frv., sem fylgjendur beggja þessara stefna sjeu ánægðir með.

Hjer eru líka talin upp fjögur atriði, sem háttv. nefnd finnur helst athugaverð í frv. Fer það alt í þá átt, að skatturinn gangi of nærri, sje of hár á lágum tekjum o. s. frv. Jeg skal fúslega játa þetta. Jeg vildi gjarna, að skattar gætu komið sem ljettast niður á hinum fátækari hluta þjóðarinnar. En fleira verður að gera en gott þykir. Hvernig líta fjárlögin út? Og hvernig á að fylla í það skarð, sem þar er? Tekjur megum við til að fá. Og er þá ekki rjett að taka þær með þeim skatti, sem fer þó næst sanni og sanngirni?

Nefndin tekur dæmi til að sýna, að skatturinn geti komið misjafnt niður. Slíkt er aldrei hægt að sigla fyrir. Lög verður að gera fyrir fjöldann, en ekki einstök dæmi. Jeg gæti líka búið til mörg slík dæmi, sem eigi er hægt að gera fyrir í lögunum. Og þá eru t. d. veikindi. Fyrir þeim er aldrei hægt að gera, svo að full sanngirni sje. Og þó að mjer heyrðist á háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), að frv. væri mjög gallað, þá þori jeg að fullyrði, að fá frv. hafa verið betur undirbúin en þetta.

Brtt. nefndarinnar geri jeg ekki að neinu kappsmáli. Altaf er hugsanlegt, að eitthvað komi í ljós við framkvæmd laganna, sem þörf þætti að breyta, og þá gerir þetta hvorki til nje frá.

Þá er eitt atriði, sem nefndin minnist á. Hún segir, að skattur hækki á lágum tekjum, en lækki á háum, frá því sem nú er. Þetta er rjett um nokkurt svæði, þar sem dýrtíðar- og gróðaskatturinn byrjar. Sá skattur var settur til bráðabirgða og ekki feldur inn í skattakerfið. Var því stökk í skattinum þar sem hann kom við. Hjer er alt kerfið tekið, stökkið hverfur, og af þessu stafar það, sem nefndin er að tala um. Auk þess mun þetta nú varla koma að sök, því að nú á næstunni er lítil von um mjög háar tekjur. Þó vona jeg, að þetta frv. gefi meiri tekjur, ef það verður að lögum, en tekjuskattur sá, sem nú er í lögum.