21.02.1921
Neðri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

11. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (M. G.):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er bygt á alt öðrum grundvelli en hin gildandi stimpillög. Eins og hv. þm. er kunnugt, er stimpilskylda skjala eftir gildandi lögum bygð á því, að skjal sje annaðhvort afgreitt af opinberum starfsmanni eða lánstofnun. Jafnkunnugt mun og háttv. deildarmönnum um, að þetta ráð var tekið 1918, er stimpilgjaldslögin voru sett, fyrir þá sök, að óvíst þótti, hversu stimpilgjald gæfist hjer á landi. Hitt mun þó engum hafa dulist, að það var ósanngjarnt, að t. d. víxill, sem lánstofnun keypti. var stimpilskyldur, en ekki víxill, sem einstakur maður keypti. Nú er nokkur reynd kominn á stimpilgjaldið hjer, og verður alls ekki sagt, að það hafi gefist illa, og með fram vegna þess er í frv. þessu horfið frá stefnu þeirri, er upp var tekin 1918, og það tekið upp í staðinn, sem mun vera siður alstaðar, þar sem stimpilgjald er í lögum, að binda stimpilskylduna við tegundir skjala, en ekki ákveðna meðferð þeirra, svo sem þinglestur, sölu í banka o. s. frv.

Önnur meginbreyting, sem ráðgerð er í þessu frv., er sú, að niður falli stimpilgjald af farmskírteinum til útlanda og reikningum yfir aðfluttar vörur. Þessi gjöld, sem í raun og veru eru aðflutningsgjöld og útflutningsgjöld, voru sett til bráðabirgða, til þess að ná inn tekjum, er nauðsynlegar voru vegna afleiðinga heimsstyrjaldarinnar, og þykir því sjálfsagt að leggja það til nú, að þau verði úr gildi feld. En við þetta rýrnar stimpilgjaldið auðvitað afarmikið, sennilega um 1. milj. kr. á ári. Nokkuð vinst þetta upp með því, að miklu fleiri tegundir skjala verða stimpilskyldar en áður var, ef frv. þetta verður að lögum, og þykir mjer líklegt, að ætla megi, að tekjur af því verði um 1/2 milj. kr. á ári.

Til leiðbeiningar fyrir þá nefnd, sem fær frv. þetta til meðferðar, skal jeg geta þess, að í 9. gr. frv. er prentvilla „verði“ fyrir ,,veði“, og er líklega rjettast að lagfæra þetta með brtt.

Jeg skal ennfremur geta þess, að umboðsmaður vor í utanríkisráðuneytinu, Jón Krabbe, sem er mjög kunnugur stimpilgjaldslöggjöf Norðurlanda, hefir eftir beiðni minni athugað frv. þetta og sent mjer nokkrar athugasemdir, og mun jeg láta nefndina fá þær til athugunar, því að jeg hygg, að rjett sje að taka sumar þeirra til greina.

Annars skal jeg taka það fram, að við samning lagafrv. sem þessa er jafnan tvent álitamál, fyrst og fremst hverjar tegundir skjala skuli stimpilskylda og hversu hátt gjaldið skuli vera. í þessu efni dettur mjer ekki í hug að halda því fram, að frv. þetta hitti alstaðar hið rjetta, og er jeg þakklátur fyrir allar góðar bendingar í þessa átt. Sjerstaklega get jeg búist við, að einhver flokkur skjala kunni að hafa gleymst, sem ástæða væri til að stimpilskylda.

Frv. gerir ekki ráð fyrir því, að hver og einn skuli stimpla skjöl sín, vegna þess, að það er oft töluvert vafamál, hvernig stimpla skal. Annars skal jeg ekki við þessa umr. fara út í einstök atriði, en leyfi mjer að leggja til, að frv. þessu verði, að lokinni þessari umr., vísað til fjárhagsnefndar.