18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

11. mál, stimpilgjald

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Það er eins um þetta frv. og skattafrv. í dag, að það kom mjög seint upp í háttv. deild, og hefir því ekki gefist tími til að rannsaka það eins og skyldi. Þó er nefndin ekki í neinum vafa um, að það eigi að ganga fram, og hefir aðeins gert á því örfáar breytingar. Aðalbreytingarnar, sem þetta frv. hefir í för með sjer, eru þær, að 1% gjaldið af útfluttum vörum, sem ákveðið er í núgildandi stimpilgjaldslögum, er ekki tekið upp í þetta frv., og á það að koma fram í sjerstöku frv. sem útflutningsgjald; auk þess er nú stimpilgjaldið lagt á ýmislegt fleira en áður.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á brtt. nefndarinnar.

1. brtt. við 5. gr. fer fram á, að 5. liður gr. orðist um. Nefndinni þótti ekki ástæða til að leggja stimpilgjald á ávísanir yfirleitt, heldur aðeins þegar þær væru brúkaðar sem liður í viðskiftalífinu á þann hátt, að þær gengju kaupum og sölum.

Þá er 2. brtt. við 17. gr. Hún er fram komin af þeirri ástæðu, að nefndin var hrædd um, að ef það væri orðað eins og stendur í frv., þá gæti þar fallið undir veðbókarvottorð, en slíkt nær vitanlega ekki nokkurri átt, að stimpilgjald sje greitt af þeim eftir vissu hundraðsgjaldi af verðhæð þeirra eigna, sem veðbókarvottorð er gefið fyrir. Þetta mun ekki heldur hafa verið meining hæstv. stjórnar, og er því þessi brtt. fram komin aðeins til að fyrirbyggja misskilning.

Brtt. við 35., 36. og 37. gr. eru bein afleiðing af brtt. við 5. gr., og þarf jeg ekki að gera frekar grein fyrir þeim.

6. brtt. við 38. gr. fer í þá átt, að enginn stimpilgjaldsskattur sje lagður á iðgjalds- og endurnýjunarkvittanir. Þótti nefndinni nægilegt, að lagður væri skattur á þessi skírteini, sem gr. getur um, þótt kvittununum væri slept, og það því fremur, sem hjer er um eintómar tryggingar að ræða. Nefndinni þykir heldur ástæða til að ýta undir menn í því tilliti en draga úr þeim með slíku gjaldi. Auk þess mundi ríkissjóð aldrei muna mikið um það gjald.

7. brtt. við 41. gr. fer fram á, að r-liður og x-liður falli burtu. Viðvíkjandi fyrri liðnum skal jeg geta þess, að þótt nefndin gæti sætt sig við, að gjald væri lagt á skírteini um embættispróf, þá finst henni með öllu óviðeigandi að leggja slíkt gjald á prófskírteini barna og unglinga. Á það fólk, sem notar barna- og unglingaskólana, venjulega fult í fangi með að standast þann kostnað, sem námið hefir í för með sjer, enda gæti þetta gjald orðið alltilfinnanlegt fyrir fátæka foreldra, sem eiga fyrir stórum barnahóp að sjá.

Að því, er snertir síðari liðinn, skal jeg geta þess, að nefndinni finst fylsta ástæða til að ýta undir þjóðina að spara sem mest og leggja í sparisjóði, og vildi því síst verða til þess að draga úr þeirri viðleitni manna, með því að leggja slíkt gjald á þá.

Það eru ekki fleiri brtt., sem nefndin hefir gert, og skal jeg þá ekki orðlengja þetta frekar, en vonast til, að háttv. deild samþykki frv. með þessum breytingum.