18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

11. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer finst háttv. nefnd ekki hafa bætt frv. neitt með þessum tillögum sínum. Jeg sje enga ástæðu til að undanskilja ósamþyktar ávísanir. Jeg er viss um, að slíkt ákvæði leiddi til þess eins, að hætt yrði að samþykkja ávísanir, því að mjög hægt er að komast hjá að láta samþykkja þær, t. d. með því að senda samþykkið í sjerstöku brjefi, og ávísanirnar missa ekki neinn rjett, þótt þær sjeu ekki samþyktar.

Um 2. brtt. hefi jeg ekkert að segja; hún gerir í sjálfu sjer ekkert til, en er þó óþörf. því að í 41. gr. er ákveðið, að almenn vottorð skuli stimplast með 50 aurum. Undir þá grein heyrir t. d. veðbókarvottorð, og hygg jeg ekki neina hættu á því, að nokkur lögreglustjóri mundi fara að stimpla slík vottorð sem afsal. En verði brtt. nefndarinnar samþ., þá er og sjálfsagt að samþ. þessa brtt., því að hún getur ekkert skaðað.

3., 4. og 5. brtt. leiða af fyrstu brtt., og er ekki þörf að ræða þær.

6. brtt. er um að undanskilja stimplun iðgjaldakvittanir og endurnýjunarkvittanir brunaábyrgðar- og sjóvátryggingarskírteina. Á fundi, sem jeg var á með nefndinni, stakk jeg upp á því, til samkomulags, að iðgjaldakvittunum væri slept, en hinum haldið. Nú álít jeg mig ekki bundinn við þá miðlunartillögu, því að nefndin tók hana ekki til greina, heldur hefir haldið fast við það að undanskilja allar kvittanir stimplun. Jeg verð að halda því fram, að misráðið væri að samþ. þessa brtt., því að einstaklinginn munaði lítið að borga þetta gjald, en þegar alt kæmi saman, gæti það orðið talsverð fjárhæð fyrir ríkissjóð.

Þá er 7. brtt. Nefndin er á móti því, að gjöld sjeu tekin fyrir prófskírteini skólanna, t. d. Verslunarskólans, Kvennaskólans og Mentaskólans. Ekki get jeg sjeð, að gjöld þessi yrðu tilfinnanleg nje að þau sjeu ósanngjörn. Þegar athugað er, að ríkissjóður borgar 2 miljónir til skólanna á ári og nemendur fá ókeypis alla kenslu, þá virðist ekki ósanngjarnt, að þeir verði að borga einar 10 kr. fyrir prófskírteini sín. Hjer í þessari brtt. kemur það eins og oftar fram, að ef leggja á nýtt gjald á, þá þykir það ganga svo nærri þeim, sem hlut eiga að máli, að ekki sje hægt að leggja það á.

Jeg er og á móti því að undanskilja sparisjóðsbækur stimplun. Það, sem háttv. frsm. (S. E.) sagði um þetta atriði, er rjett, ef miðað er við barnabækur, sem 1 eða 2 krónur eru lagðar í, en það á ekki við um bækur, sem ef til vill fleiri þúsundir eða tugir eða hundruð þúsunda hafa verið lagðar inn í. En þótt lítil fjárhæð sje oft fyrst í barnabókunum, og því ósanngjarnt að taka þetta gjald af þeim, þá er þó það að athuga, að inn í þessar sömu bækur getur barnið, þegar það er orðið fullorðið, lagt fleiri þúsund krónur. (S. E.: Erfiðast er að ná fyrstu krónunum). Fyrir barnið? (S. E.: Já). Nei, þeim er venjulega gefin sparisjóðsbókin í fyrstu með fáum krónum í. — Annað kemur einnig til greina í þessu máli. Flest sparisjóðsfje er nú skattfrjálst. Sumpart af því, að skattanefndir fá sparisjóðsfje ekki talið fram, og sumpart af því, að margar sparisjóðsupphæðirnar eru svo litlar, að þær eru ekki skattskyldar. En þó að inneignin sje svo lítil, að hún sje ekki skattskyld, þá getur þó verið ástæða til að skatta hana dálítið, og það yrði einmitt gert, ef lögleitt yrði að stimpla sparisjóðsbækurnar. Stimpilgjaldið af sparisjóðsbókum mundi ekki muna miklu fyrir ríkissjóðinn nema fyrsta árið, þegar allar gömlu sparisjóðsbækurnar yrðu stimplaðar. Get jeg hugsað, að þá mundi það nema kring um 15 þús. kr. Jeg held áreiðanlega, að þessir tveir skattar, á prófskírteinum og sparisjóðsbókum, sjeu ekki ósanngjarnari en margir aðrir skattar. Að láta borga fyrir prófskírteini frá Mentaskólanum er í fullu samræmi við að borga verður fyrir skipstjóraskírteini. Skipstjórarnir verða að borga fyrir skírteini, sem gefur þeim rjett til að fara með skip, og stúdentar borga fyrir skírteini, sem gefur þeim rjett til að stunda nám við háskóla.