18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

11. mál, stimpilgjald

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Jeg þarf ekkert að segja um ávísanirnar. Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) talaði svo rækilega um þær. Á 2. brtt. við 17. gr. verð jeg að minnast. Hæstv. fjrh. (M. G.) fanst hún óþörf. Ekki get jeg skilið að svo sje. Jeg kannast að vísu við það, að í 41. gr. er talað um „vottorð, sem einstakir menn biðja um úr embættisbókum eða skjalasöfnum“. Sagði hann, að undir þessa gr. fjellu veðbókarvottorð. Getur vel verið, að stjórnin hafi ætlast til þess. En niðurlag 17. gr. er svo orðað, að þau vottorð geta ekki verið þar undanskilin. Þar stendur, að vottorð, sem eru til sönnunar eignarheimild, stimplast sem afsöl. En þar með eru einmitt veðbókarvottorð. Ómögulegt er því að skýra 41. gr. öðruvísi en að þar sje átt við vottorð yfirleitt, en í 17. gr. sje átt við veðbókarvottorð. Til þess að fyrirbyggja allan slíkan misskilning hefir því nefndin borið fram þessa brtt. við 17. gr.

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um stimplun á kvittunum, og vildi ekki undanskilja þær stimplun. En varla er hægt að bera á móti því, að óeðlilegt er að krefjast gjalds af öllum þessum kvittunum. Nóg er að taka gjald af hinum upphaflegu skírteinum.

Jeg vil taka það fram, að einn af nefndarmönnunum er á móti brtt. við 41. gr. Er það háttv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.).

Um gjaldið af prófskírteinunum vil jeg aðeins segja það, að þeir, sem kunnugir eru, munu vita, að flestir, sem ganga í lærðaskólann, unglingaskóla. barnaskóla o. fl. eiga erfitt uppdráttar. Og einmitt þetta hefir verið viðurkent, með því að hafa kensluna ókeypis. Það virðist því í fullu samræmi við það að hlífa þeim við þessum gjöldum.

Um stimplun sparisjóðsbókanna er það að segja, að því er nú svo farið, að ýmsir mundu veigra sjer við að leggja litlar fjárhæðir í sparisjóð, ef þeir þyrftu bæði að kaupa bók og borga stimpilgjald. En undirstaða allrar sparsemi í þessu landi er að fá fólkið til að spara smáupphæðir og leggja það fje til hliðar, því að úr því byrjað er að leggja inn smáupphæðir, þá koma þær stærri sjálfkrafa á eftir.