18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

45. mál, Sogsfossarnir

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Eins og sjá má af nál. hefir meiri hluti samvinnunefndar vatnamála lagt til, að frv. yrði samþykt óbreytt. Jeg skal því leyfa mjer að gera grein fyrir því, hverskonar rannsókn um er að ræða í 1. gr. frv.

Fyrst og fremst þarf að rannsaka virkjunarkostnað Sogsfossanna; þar eru tvö fallvötn. Það efra, sem er minna, og það neðra, sem er meira, og fellur það í þrem fossum. Það verður að fá vitneskju um það, hvað kostar að virkja þessi fallvötn, hvort fyrir sig.

Þá þarf að rannsaka kostnað við leiðslu rafmagnsins til almenningsþarfa, bæði til sveita og sjóþorpa Suðurlandsundirlendisins, og eins til sveita og kauptúna við Faxaflóa. Hvort unt reynist að fá almenningi til handa raforku úr þessum fallvötnum mun velta ekki síður á leiðslukostnaðinum en á hinu, hvort sjálf virkjunin kostar meira eða minna. En það er algerlega órannsakað mál, hvort þjettbýli er hjer svo mikið, að það svari kostnaði að veita raforku yfir svo stórt svæði sem um er að ræða, og er mikilsvert að fá úr þessu skorið með ábyggilegri rannsókn. Þá er það einnig rannsóknarefni, hvort hagkvæmara sje að nota orku úr þessum fallvötnum, Sogsfossunum, til almenningsþarfa í Borgarfirði, eða virkja þar sjerstaka fossa í því skyni. Og þessi rannsókn má ekki dragast mikið, því að nú er kominn skriður á það mál þar efra í Borgarfirði að virkja Andakílsfossa til þessara þarfa. Það er því nauðsynlegt, að sem fyrst sje hægt að ganga úr skugga um, hvað hagkvæmast sje í þessu efni, því að það væri illa farið, ef jafnmikilsverðu máli væri teflt í tvísýnu, með því að byrja á framkvæmdum að órannsökuðu máli.

Þá þarf og að rannsaka, hve mikil orkunotkunin muni verða, ef kleift reynist að veita orku út um sveitirnar, og þarf jafnframt að rannsaka mismun notkunarinnar á hinum ýmsu árstíðum. Undir þessu verður því komið, meðal annars, hvort fært verður að virkja fossana, og samkvæmt þessu verður að ákveða stærð fallvatnsins og annað, sem að virkjuninni lýtur. Þá þarf og að rannsaka, hver tilhögun virkjunarinnar yrði ódýrust og heppilegust og hvað ætti að gera við þá orku, sem afgangs yrði almennings þörfum. Orkan til almennings þarfa verður að vera eins ódýr og frekast er unt, en það getur hún því aðeins orðið, að sæmilegur markaður verði fyrir afgangsorkuna.

Það þarf því nákvæmra rannsókna við, hvaða markaður er fyrir þessa orku og hvaða verð mætti á hana setja, og undir þessu verður það aðallega komið, hvort hægt verður að framkvæma þetta mikilsverða mál, virkjun fossanna.

Hitt málið, sem frv. gerir ráð fyrir rannsókn á, er járnbrautarlagning austur, bæði sú járnbraut, sem nauðsynleg er til virkjunar fossanna, og járnbrautin sem sjálfstætt samgöngufyrirtæki. Það hefir verið samin bráðabirgðarannsókn, sem mjög var ófullkomin vegna ónógrar fjárveitingar. Það reyndist aðeins kleift að rannsaka eina leið, Þingvallaleiðina; en til þess að alt sje örugt og áreiðanlega verði valið það, sem heppilegast er, þarf að rannsaka fleiri leiðir, t. d. Reykjanesleiðina og ef til vill fleiri. Og þegar austur er komið, þarf að rannsaka hvernig heppilegast sje, að brautin liggi um undirlendið, og þá með hliðsjón af hliðarbrautum og akvegum til fjarlægari sveita.

Þá þarf að rannsaka gerð brautarinnar, breidd hennar og gildleika teinanna og það, hvernig hægt verði áð starfrækja fyrirtækið vetur sem sumar, því að það er skilyrði þess, að brautin komi að notum. Eins þarf það rannsóknar við, hvaða afl á að nota, og sjerstaklega hvort ekki sje tiltækilegt að nota raforku. Og þá þarf að rannsaka leiðslu rafmagnsins meðfram brautinni í sambandi við leiðslu þess til sveita og kauptúna til almennings þarfa.

Þá er komið að þeirri spurningu, hvort það sje tímabært eða nauðsynlegt, að stjórnin fái nú þessa heimild. Allir eru á einu máli um það, að þessar rannsóknir þurfi að hafa farið fram áður en til framkvæmda kemur. Og allir eru sammála um það, að slíkra rannsókna sje ekki að vænta, ef stjórnin geri þær ekki. Öðrum er ekki til að dreifa, enda er það eðlilegt, að ríkissjóður kosti þessa rannsókn, þar sem um svo stórt svæði er að ræða, að ekki minna en 6 lögsagnarumdæmi munu beinlínis njóta góðs af þessum mannvirkjum, auk þess sem alt landið nýtur þeirra óbeint.

Meiri hlutanum virðist það varhugavert að skjóta þessu máli lengur á frest. Hann veit það, að tími framkvæmdanna er ekki enn kominn, en enginn veit hvenær hann verður, og þá er sjálfsagt að hafa til allan undirbúning og láta tækifærið ekki ganga úr greipum sjer. Tími undirbúningsins er þegar kominn, og þessu verður að flýta eftir því, sem fjárhagur landsins leyfir. Málið á það fyllilega skilið, að Alþingi gefi því gaum og láti ekki sitt eftir liggja, að alt geti verið til þegar tími framkvæmdanna kemur.

Jeg hefi ekki hugsað mjer að fara út í ástæður minni hlutans að sinni. Jeg kann betur við að gefa honum tækifæri til að taka til máls áður. En þó eru einstaka atriði, sem jeg vildi gera að umtalsefni þegar í stað.

Það er þá fyrst sú staðhæfing, að þál. frá 1919 gefi stjórninni nægilega heimild í þessu efni. Þessu vil jeg svara á þann hátt, að jeg tel það ólögmætt og óforsvaranlegt að veita stjórn heimild til fjárveitinga yfir mörg fjárhagstímabil, með þál. einni. Það er satt, að til þingsályktunar er stundum gripið, þegar svo stendur á, að ekki vinst tími til að gefa löglega heimild og fjárveitingin nær aðeins til skamms tíma. Þetta segi jeg af því, að þál. er ekki lögleg heimild til fjáreyðslu úr ríkissjóði, heldur þarf til þess lagaheimild. Jeg get því ekki talið það löglegt eða heppilegt að veita svo mikilsverða fjárheimild með þál. einni, og auk þess verður fjárveitingin að ná yfir ótakmarkað árabil, því að enginn veit, hvað rannsóknin krefst mikils tíma eða hárra fjárhæða. Jeg skil heldur ekki, að þeir, sem telja stjórninni þetta heimilt nú, sjeu á móti því að tryggja heimildina og hefja hana yfir allan efa.

Þá er það atriði í ástæðum háttv. minni hluta, að ríkið þurfi að hafa eignarrjett yfir þessum fallvötnum áður en það hefur rannsókn. Jeg veit til þess, að ríkinu hefir boðist þessi rjettur, en þing og stjórn ekki verið neitt áfjáð í hann, enda álít jeg, að það sje að byrja á vitlausum enda að kaupa þennan vatnsrjett. Aðalatriðið er ekki, á þessu stigi málsins, hver virkjar, heldur hvort fært er að virkja. Þetta frv. svarar ekki spurningunni, hver eigi að virkja; það heldur henni opinni. Þegar rannsókn hefir skorið úr því, hvort fært sje að virkja, og þá með hvaða hagnaði eða hvers konar tilhögun, þá er hægt að útgera, hver eigi að taka að sjer virkjunina, það opinbera eða einstakir menn eða samlög hins opinbera og einstaklingsfjelaga. Það er því best að láta allan ágreining um það atriði bíða síns tíma. Ef sú niðurstaða verður, að ekki sje unt að virkja þessi fallvötn, þá er öll slík deila tilgangslaus og til ills eins.

Þá getur háttv. minni hluti þess, að þeir, sem stóðu að þessu máli 1919 og standa að því nú, sjeu hlyntir fossafjelaginu „Ísland“, og beri frv. þess merki. Þetta frv. er samið af meiri hluta milliþinganefndarinnar í fossamálinu, og get jeg fullyrt, að enginn þeirra manna er neitt við það fjelag riðinn. Ef þessum ummælum háttv. minni hluta er beint að höf. frv., verð jeg að lýsa þau með öllu tilhæfulaus, en til þeirra er þeim beint, eins og sjá má af því, að háttv. minni hluti þykist lesa þessa staðhæfingu sína út úr frv. sjálfu. Enginn þessara manna er hluthafi, stjórnari fjelagsins „Ísland“ eða á neinn hátt við það bundinn, en hitt er annað mál, hvernig þeir líta á virkjunina frá almennu sjónarmiði. Þar eru þeir ekki sammála. Sumir telja heppilegast að hún verði í höndum þess opinbera, aðrir að hún verði í höndum einstakra manna.

En þessir menn eru allir á því máli, að eftir öllum líkum sjeu Sogsfossarnir ódýrastir til virkjunar og hentugastir til þess að framleiða raforku til almennings þarfa.

Þetta eru nægar forsendur fyrir framkomu frv. En til þess þarf rannsókn, að úr því verði skorið, hvort þetta hugboð er rjett eða ekki.