18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

45. mál, Sogsfossarnir

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi ekki getað orðið samferða meiri hluta nefndarinnar, og hefi jeg gert grein fyrir áliti og ástæðum mínum á þskj. 265. Jeg þarf varla að skýra það öllu nánar, en út af ummælum háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vil jeg bæta dálitlu við nál.

Jeg vil minna á það, að 1919 lá þetta sama frv. fyrir þinginu, og í stað þess að taka það til frekari meðferðar, samþykti þingið þingsályktun þá 26. sept., sem talað hefir verið um og háttvirtur 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vill svo lítils meta. Alþingi hafnaði þá frv., en tók þann upp, að samþykkja þál. um að ná eignarumráðum yfir Sogsfossunum. Af þessu má sjá, hvað vakað hefir fyrir Alþingi 1919. Það vildi fyrst tryggja yfirráð ríkisins yfir fossunum og síðan stofna til rannsóknar um virkjunarkostnað, eins og líka var eðlilegt. Fossafjelagið „Ísland“ telur sig hafa ráð á þessum fossum, og hefir leitast við að fá lögmældan rjett til atvinnurekstrar við þá. En Alþingi 1917 og 1919 vildi ekki veita hann. Meðan rjettindin eru í höndum fjelagsins, verður eigi annað sjeð en að rannsóknin sje gerð fyrir það, en ekki fyrir ríkið. Þetta liggur í augum uppi.

Það er rjett hjá háttv. þm. (J. Þ.), að áður en ráðist sje í framkvæmdir þurfi rannsóknar við. Um þetta eru allir sammála, og Alþingi 1919 var einnig á þessari skoðun. En þá fyrst ber að rannsaka, þegar umráðarjetturinn er í höndum ríkisins. Það er kunnugt, að síðan till. 1919 var samþykt hefir verið leitað hófanna hjá fossafjelaginu „Ísland“, um að afhenda þennan rjett, og á síðasta þingi gaf hæstv. forsrh. (J. M.) skýrslu um þær málaleitanir. Jeg man ekki glögglega hvernig hún hljóðaði, en það var í henni fólgið tilboð um afhendingu þessara rjettinda, með kjörum, sem ekki virtust mjög óaðgengileg, og þeim má eflaust fá breytt þannig, að aðgengilegri verði.

Jeg þori ekki að fullyrða eftir minni, hver söluupphæðin var, en jeg man það, að hún var ekki ýkjahá, og líkur eru til þess, að komast megi að betri samningum við fjelagið. Í þessari skýrslu lá það einnig, að fjelagið gæfi kost á öllum vatnsrjettindum, er það hafði fengið hjer. Að segja með vissu, hvers virði þetta er, er ekki hægt, en komast má nokkuð nærri því, hversu miklu fjelagið hefir kostað til. Af leigu- og kaupsamningum, sem mjer eru kunnir og snerta vatnsrjettindi fjelagsins í Skjálfandafljóti, Laxá, Hvítá og Soginu, mun vera búið að greiða um 35–40 þús. kr. Á sumum stöðum er ekki tilgreind leiguupphæðin, svo að ekki sjest hve mikið þar hefir verið lagt af mörkum. En auk þessa hefir verið goldin talsverð upphæð til mælinga, uppdrátta o. fl., og sömuleiðis má gera ráð fyrir nokkrum kostnaði við stjórn fjelagsins. Líklega er samt ekki ástæða til að áætla hærri söluupphæð en svo sem 100–150 þús. kr., þegar miðað er við öll vatnsrjettindin, en auðvitað miklu minna. ef aðeins væri um Sogið eitt að ræða. Og ef líkur eru fyrir því, að við getum hagnýtt okkur þennan vatnsrjett, þá hygg jeg það vel ráðið að reyna að nálgast hann. Vatnsrjettindin verða því verðmætari sem þekkingin á gagnsemi þeirra eykst meira og því víðar sem tekst að nota þau til lýsingar og hitunar og annara þæginda, er allur almenningur getur notað. Jeg legg áherslu á það, að á undan þessari rannsókn, sem frumvarpið beinist að, gangi fram framkvæmd þál. frá 1919. Rannsóknin mun leiða það tvent í ljós, að vatnsfallið er sjerlega hentugt til virkjunar og brautarlagningin tiltölulega auðveld. En þegar slíkt verður leitt í ljós með rannsókn, þá verður afleiðingin eðlilega sú, að verðmæti vatnsrjettindanna vex í augum núverandi eigenda. Og mjer finst eigi ástæða til að búa svo í haginn fyrir seljanda, að honum sje gefin hvöt til að hækka söluverðið. Hitt er aftur sjálfsagt að rannsaka sem fljótast. ef honum eru fyrirhuguð afnotin.

Háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) fanst jeg vera að drótta að meiri hluta fossanefndar, að hann væri í einhverju makki við fossafjelagið ,,Ísland“. Þetta er misskilningur. Jeg hefi ekkert um það talað, en hitt er rjett, að jeg tel suma aðstandendur frv. hafa verið hlynta fjelaginu, og á þá við þá, er standa að frv. nú og stóðu að því 1919. Sumir þessara manna studdu erindi fjelagsins um leyfi til virkjunar á Soginu, er það sótti til þingsins 1917, og virðast þeir hafa trú á fjelaginu enn. Og þótt jeg geti ekkert um það fullyrt, þá hygg jeg, að frsm. sjálfur (J. Þ.) hafi ekki verið á móti því að leyfa þá virkjun fjelaginu til handa.

Háttv. þm. (J. Þ.) tók það fram, að það væri skakt spor stigið. ef ekki væri látin fara fram rannsókn á undan framkvæmd þál. frá 1919. Mín skoðun er alveg gagnstæð. Jeg álít skakt spor stigið, ef rannsókn fer fram á undan framkvæmdinni á þál. frá 1919. Háttv. frsm. (J. Þ.) áleit. að þál. frá 1919 væri ekki lengur í gildi, eða að ekki væri hægt að framfylgja henni hjeðan af. (J. Þ.: Það er ekki heimilt að verja fje eftir henni!). Nú, að ekki væri heimild til að verja fje eftir henni, — en jeg vil þá benda honum á það, að með þál. frá 1917 var veitt heimild til fjárútláta úr ríkissjóði til skipakaupa landssjóðs, sem voru miklu stórfeldari en þetta. Hjer er ekki um svo mikið fje að ræða vegna rannsóknanna. En engum dettur víst í hug, að á næstu árunum verði járnbrautin bygð af hálfu ríkissjóðs, eða að hún verði bygð öðruvísi en með hliðsjón af notkun vatnsins.

Að jeg hafi talið orðalag frv. benda til þess, að hjer væri til þess ætlast, að fossafjelagið „Ísland“ gengi inn í sín fornu rjettindi, hygg jeg engan þurfa að undra, sem les 3. gr. frv. Þar er bent til þess, að eitthvert fjelag taki við, að rannsókninni lokinni, og losi landssjóð við kostnaðinn af þeirri rannsókn.

Það er ljóst, að það líða nokkur ár, áður en við getum ráðist í þau mannvirki, er þurfa til þess að virkja Sogið. Og út af þessu öllu, sem jeg nú hefi tekið fram og er einnig tekið fram í nál. minni hl. á þskj. 265, hefi jeg leyft mjer að koma fram með rökstudda dagskrá, um frestun málsins meðan leitað er betur hófanna um það erindi, er felst í þál. frá 1919. Leyfi jeg mjer að vænta þess, að hún verði borin undir atkvæði, og að hún verði ekki feld, fyrir tómlætis sakir. Að hinu kemur síðar, þegar einhver skilyrði eru fyrir því, að rannsóknar þurfi með, vegna ríkisfyrirtækis í Soginu, en ekki fyrir fossafjelagið „Ísland“.