12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

45. mál, Sogsfossarnir

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. frsm. þessarar þál.till. (Þorl. J.)talaði um það, að ekkert hefði gerst í máli þessu síðan 1919. Þetta er rjett. Það hefir ekkert gerst annað en það, að legið hefir frammi tilboð frá fossafjelaginu „Ísland“ um sölu á rjettindum þess. En þingið hefir hvorki sagt af nje á um það. Ef nefndin hefði viljað, þá hefði hún getað fengið upplýsingar um kostnað við að virkja Sogið. Þótt þær sjeu ef til vill ekki fullkomnar, þá munu þær þó fara nærri sanni. Það er rjett hjá frsm. að tilboðið, sem fyrir liggur, er um öll rjettindi fossafjelagsins „Ísland“. Mjer hefði verið hægt að fá að vita hvað fjelagið mundi gera sig ánægt með fyrir rjettindi sín yfir Soginu einu, en jeg áleit hyggilegra að kaupa alt, ef kaupa á á annað borð; það mundi ekki muna svo miklu á verðinu. Það hefði ef til vill verið hægt að fá lægra tilboð, en þetta er ekki frágangssök, eftir því hvers virði rjettindin eru sögð. Stjórnin gæti sjálfsagt enn aflað tilboðs um Sogið eitt, en þá er eftir að bera það undir þingið og vita hvort það vill ganga að því. En þetta þýðir drátt á málinu, og hann álít jeg mjög óheppilegan. Það sýnist vera sjálfsagt að láta rannsókn fara fram svo fljótt sem unt er. Annað gæti og verið álitamál, hvort hægt væri eftir lögunum að taka rjett lögnámi, áður en ákveðið væri, hvort rjetturinn yrði notaður. Og ef tekið væri lögnámi, þá hefir það þá þýðingu, að borga verður strax, í stað þess, að annars mætti borga með skuldabrjefum með sanngjörnum vöxtum.

Jeg skal svo leggja áherslu á það, að ef leita á tilboðs af nýju, þá er það aðeins nýr dráttur á málinu, því að jeg býst við, að stjórnin verði treg til að ákveða á eigin spýtur, hvort ganga eigi að tilboðinu, án þess að bera það undir þingið.