12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

45. mál, Sogsfossarnir

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Jeg verð að játa það, að mjer kemur mjög á óvart sú mótstaða, sem fram er komin gegn því, að þetta sjálfsagða frv. nái fram að ganga. Jeg hefði getað skilið, að sumir þættust ekki geta samþykt það af fjárhagslegum ástæðum, því að rannsóknin kostar mikið fje. En þessi eina ástæða, sem jeg hafði hugsað að hægt væri að koma fram með, hefir alls ekki komið fram. En þeirri mótbáru hefir verið hreyft gegn frv., að ekki væri hagkvæmt að veita mikið fje til rannsóknar fyr en búið væri að ná yfirráðum yfir vatnsrjettindunum í Soginu frá þeim, sem nú hefir þau, fossafjelaginu „Ísland“ sjerstaklega.

Frsm. minni hl. nefndarinnar (Sv. Ó.) kvað vatnsrjettindin hækka mikið í verði, ef rannsóknin yrði framkvæmd. En þetta er ekki rjett, ef ríkissjóður borgar kostnað rannsóknarinnar.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að gera sjer grein fyrir, hvernig umráðarjetti vatnsrjettinda í Soginu er varið. Sogið er tvö fallvötn, hið efra milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns og hið neðra, eða hinir eiginlegu Sogsfossar. Hið efra er talið hafa um 15 þús. hestafla orku sem nýta má, og hið neðra um 45 þús. hestafla orku, eða Sogið alls um 60 þús. hestafla orku. Þetta skiftist svo, að landið á vatnsrjettindin að 22,500 hestöflum, Reykjavíkurbær um 7 þús. hestöflum, eigendur Úlfljótsvatns um 18,700 hestöflum og fossafjelagið ,,Ísland“ um 11,– 800 hestöflum. Fossafjelagið „Ísland“ hefir þannig um 1/5 vatnsrjettinda í Soginu, og það hefir þau aðeins á leigu, en hefir ekki keypt þau, og greiðir það vist árgjald fyrir þessi vatnsrjettindi. Það er að vísu ekki hægt að segja með nákvæmni, hvað landið á mikið, því að hólmar í Soginu geta haft nokkur áhrif á það, en ætla má, eftir rannsóknum, að það sjeu um 22,500 hestöfl. Auk þessa kann fossafjelagið ,,Ísland“ að hafa fengið nokkur vatnsrjettindi leigð frá umráðamanni kirkjujarða við Sogið, en sá leigumáli stendur aðeins meðan hann er umráðamaður, því að leigan er ekki samþykt af kirkjustjórninni. Þegar því er um það að ræða að ná umráðarjetti yfir vatnsrjettindum í Soginu, þá er fossafjelagið „Ísland“ þar ekki aðalatriðið, heldur á einn einstakur maður meira en það fjelag, og hann er nú hjer í Reykjavík og er eflaust hægt að fá upplýsingar hjá honum.

Þá vil jeg gera grein fyrir því, að tveir möguleikar eru til virkjunar. Það er að virkja efra fallvatnið, eða aðeins um 15 þús. hestöfl, og yrði sú orka, sem þar fengist, þá eingöngu til almennrar notkunar. Almenningur mundi þurfa á allri þessari orku að halda suma tíma ársins, og væri þess vegna ekki hægt að leigja hana til iðnaðar. Sumir hafa haldið, að þetta væri framkvæmanlegt, en jeg er dauftrúaður á það. En þó er rjett að athuga, hvernig málið horfir við, ef þessi leið væri farin. Við efra fallvatnið á „Ísland“ aðeins 1/8 Úlfljótsvatns, og svarar það til 1/16 af orku þeirri, sem nýta ætti, væri ríkiseign, en hitt eign þess manns, sem jeg talaði um áðan og nú er hjer í bænum. Þess vegna væri engin ástæða að bíða með þessa virkjun þar til vatnsrjettindunum væri náð af fossafjelaginu „Ísland“.

Þá er að líta á hitt, ef neðra fallvatnið væri virkjað. Ef það yrði gert, væri sú hugsun lögð til grundvallar, að almenningur notar orkuna mjög misjafnt vetur og sumar, dag og nótt, og mikið af orkunni yrði því ónotað. Í Noregi er t. d. að meðaltali aðeins 3/10 af orkunni nýtt, en hitt er látið ónotað. Af þessari ástæðu er óhagkvæmt að virkja fallvötn eingöngu til almennrar notkunar, en það má ráða bót á því. með því að virkja stærra og selja afganginn til sístarfandi iðjurekstrar. Ef 45 þús. hestöfl væru virkjuð yrðu þannig 30 þús., sem selja þyrfti til sístarfandi iðjurekstrar. Ef gert er ráð fyrir, að 3/10 notist að jafnaði af þeim 15 þús. hestöflum, sem ætluð eru til almenningsþarfa, og þau 30 þús. hestöfl, sem ætluð væru til iðnaðar, nýttust öll, þá nýttist af því, sem virkjað væri, tæpir 7/9, og sjá menn þá, hve miklu hagkvæmara það er en ef aðeins væri virkjað til almenningsþarfa og einir 3/10 nýttust. Stærri orkuver borga sig því betur, ef kaupandi fæst að orkunni.

Margir hafa talið það æskilegt, að ríkið virkjaði og ætti eitt alt orkuverið. En þetta gæti því aðeins lánast, að það gæti fengið kaupanda að 2/3 orkunnar, eða notað hana á hagkvæman hátt. Ef selja ætti orkuna, er mest um það vert að finna ábyggilegan kaupanda. En hins vegar eru mörg vandkvæði á því, að ríkið notaði orkuna sjálft. Fyrst og fremst fylgir slíkum iðnaðarfyrirtækjum mikil fjárhagsáhætta, og í öðru lagi þarf svo margt til þessa, sem ríkið stendur illa að vígi með.

Í sambandi við orkunýtinguna yrðu tilraunastofnanir nauðsynlegar, til þess að raunsaka, hvaða efni væri hægt að vinna, og kostar það fje og sjerfróða starfskrafta. Eins má benda á það, að allar aðferðir til nýtingar orkunnar við stóriðju væru ríkinu ókunnar, og ætti það ekki greiðan aðgang að þeim. Verksmiðjur, sem við slíkt fást, halda aðferðum sínum leyndum, en ef ríkið stæði uppi þekkingarlaust með stór iðjuver, væri illa farið. Ef vel á að vera, verða þeir að hafa þessa starfrækslu á hendi, sem hafa fje og þekkingu; öðrum yrði það ólán. Nú er það vitanlegt, að að fossafjelaginu „Íslandi“ standa þeir menn, sem einna mestu ráða í fjármálaheimi Dana, og auk þess hafa þeir einna besta sjerfræðiþekkingu á að skipa á Norðurlöndum hvað viðvíkur allri efnavinslu. Jeg held þess vegna, að fara verði varlega í það að víkja þeim alveg burtu, með því að neita þeim fyrirfram að halda leigurjettindum sínum hjer, því að gott væri að geta leitað til þeirra um fje og þekkingu, ef á þyrfti að halda. Þess vegna álít jeg óheppilegt að vera að bekkjast við þetta fjelag og koma fram með kröfu um það, að öll rjettindi verði af því tekin. Annað atriði í þessu sambandi tel jeg varhugavert, og það er að gera kröfuna um, að fjelagið afsali sjer rjettindum sínum, að skilyrði fyrir því, að nauðsynleg rannsókn verði hafin, því að það gefur fjelaginu of sterka aðstöðu í samningum við ríkið um kaup að þessum rjettindum, ef annars þykir þörf á að ríkið kaupi þau.

En hvað sem menn vilja segja um þessa virkjun, hvort sem menn álíta heppilegast, að ríkið framkvæmi hana upp á sitt eindæmi eða öðruvísi verði farið að, er það atriði óviðkomandi undirbúningi málsins, sem er rannsókn á virkjunarmöguleikum og járnbrautalagningu þar eystra. Öllum er það vonandi ljóst, að hvað sem virkjuninni líður, er járnbrautarmálið eins mikið nauðsynjamál eftir sem áður.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) var óánægður með það, að báðum leiðum skyldi haldið jafnopnum um virkjunina, en það er viljandi gert. Rannsókn ein getur úr því skorið, hvort heppilegra sje, að ríkið virki eða ekki og hvernig virkjunin á að fara fram. Yfirráð yfir vatnsrjettindum verða því að ráða til lykta þegar rannsóknin er um garð gengin, og þá samkvæmt því, sem hún hefir leitt í ljós. Og með þetta fyrir augum er leiðinni haldið opinni, því að annað væri hvorki ráðlegt nje heppilegt á þessu stigi málsins.

Jeg vil leggja sjerstaka áherslu á það, að rannsóknin verði svo vel úr garði gerð, að allir verði að taka hana gilda. Það má ekki spara um of. Og jeg vona, að tekist hafi að orða frv. svo, að rannsóknin verði framkvæmd á þennan hátt.

Jeg vona, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja frv., hvernig svo sem hún vill taka í þál.till., sem er næst á dagskrá. Jeg hefði ekkert á móti því, að sú till. væri samþykt, ef jeg hefði vissu fyrir því, að hún skaðaði ekki málið í framtíðinni, með því að fjármálamönnum Dana virtist svo, að verið væri að bekkjast við sig með henni. En við megum ekki við því, að hrinda neinum mönnum frá okkur að óreyndu, sem óska eftir að auka og efla viðskifti við þetta land.