12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

45. mál, Sogsfossarnir

1445Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Fljótt á litið virðist það ekki mikið vera, er á milli ber hjá meiri og minni hluta nefndarinnar. Báðir vilja láta rannsaka alla aðstöðu til virkjunar við Sogið og báðir óska, að um leið sje rannsakað, hvernig haganlegast megi fyrir koma framtíðarvegasambandi á milli höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins. — Það er því ekki stefnan, sem aðgreinir, heldur aðferðin við rannsóknina.

Því er haldið fram af minni hlutanum, að rannsókn þessa máls leiði til þess að torvelda kaupin á vatnsrjettindum, og þó að hæstv. forsrh. (J. M.) og frsm. meiri hl. (J. Þ.) mæli þessu í móti, held jeg þó, að öllum sje skiljanlegt, að rannsóknin geri rjettindin álitlegri, að ýmislegt það komi í ljós, er geri framkvæmd þessa máls fýsilegri heldur en hún er, meðan alt er órannsakað. í fyrsta lagi er búist við, að rannsóknin leiði í ljós, að þarna sje hentugt að virkja, og í öðru lagi, að vegastæðið reynist haldkvæmt. En aðferðin við rannsókn þessa er það, sem ber meiri og minni hl. samvinnunefndar vatnamála á milli.

Minni hlutinn lítur svo á, að með þál.-till. frá 26. sept. 1919 hafi verið ákveðið að framkvæma rannsókn þá, sem hjer er um að ræða, og því ástæðulaust að vera að lögbjóða það af nýju, því að þál. er enn í sínu fulla gildi, og má beita henni, að minsta kosti þangað til hún er feld úr gildi með nýrri þingsákvörðun.

En það er annað, sem minni hl. hefir enn meira á móti frv., og það er það, að í frv. er „preciserað“, ef jeg mætti svo að orði kveða, og háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) gefur það beint í skyn, að fossafjelagið ,,Ísland“ eigi að ganga inn í sín ímynduðu eða virkilegu rjettindi. Með þessu er jeg ekki að ámæla þeim, sem styðja vilja fossafjelagið Ísland og halda rjettindum þess fram; jeg vil hvorki lasta fjelag það nje lofa. En jeg vil leyfa mjer að minnast á annað fjelag, sem við höfum tekið upp á arma okkar og veitt sjerleyfi, og sem nú er að koma okkur öllum í kút. Jeg ætla ekki að nefna það fjelag með nafni, allir þekkja það. Það er ofureðlilegt, eftir því, sem sú ,,Konsession“ lánaðist, sem það fjelag fjekk 1902, að menn fýsi ekki eða sjeu ekki ýkjasólgnir í að veita fleiri stórgróðafjelögum slíkt einkaleyfi og húsbóndavald yfir oss.

Annars get jeg verið háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) þakklátur fyrir þær upplýsingar, er hann gaf um útbyggingu Sogsfossanna til virkjunar. Það var fróðlegt erindi, er hann flutti, eins og við mátti búast af sjerfróðum manni í þessari grein, en ofurlítið var það litað. En fjölvísi hans hvatti mig miklu fremur en latti til þess að halda fast við hina fyrri stefnu mína í þessu máli. Mjer finst, eftir upplýsingum hans að dæma, að aðstaða okkar sje þann veg, að ennþá æskilegra sje að ná umráðum yfir Soginu, og einkum þó þeim hlutanum, sem talinn er að sje í höndum erlendra manna. Og jeg held að auðsótt verði að ná rjettindum þessum.

Það var tekið fram af hæstv. forsrh. (J. M.), að lögnám væri lítt framkvæmanlegt, áður en ákveðin væri framkvæmd virkjunar. En fyrsta tilraunin er þó sú, að reyna að ná samningum við rjetta málsaðilja og fá keypt. Og mjer skilst, að málið horfi svo við, að góðar líkur sjeu fyrir því, að rjettindi þessi náist þrautalaust og án þess að á það verði litið sem móðgun eða tilbekkni við fossafjelagið Ísland, eftir því sem háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) fórust orð. Jeg get ekki betur sjeð en að fulltrúar fjelagsins vilji fúslega ganga að samningum, eftir þeim skjölum, sem liggja fyrir, en hitt finst mjer líka rjettmætt, að þeir fari þess á leit, að fá endurgreitt fje það, er fjelagið hefir varið til þessara rjettindakaupa. En þetta má ekki dragast úr hömlu, því að fjelagið borgar árlega leigu, sem á sínum tíma hlýtur að hækka söluverðið.

Annars verð jeg að segja það, að jeg legg ekki svo mikla áherslu á það, hvor leiðin er farin, þótt jeg telji þál. frá 1919 heppilegri er til framkvæmdanna kemur. Aðalatriðið er að forðast tvískinnung frv. og útiloka dekur við útlend fossafjelög. Og þál. frá 1919 sameinar í sjer rannsóknina og ráðstafanir til að ná í rjettindin. Að því leyti felst frv. í þál. Og þegar jeg ásamt tveim öðrum háttv. þdm. ber nú fram nýja þál.till., sem er að finna á þskj. 425 og er næsta mál á dagskrá, þá vakir ekki annað fyrir mjer en að herða á framkvæmdum hinnar fyrri þál.

Eitt var það í ræðu háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.), sem jeg vil ekki láta ómótmælt. Mjer fanst hann vera að draga úr okkur kjarkinn, með því að gefa í skyn, að við gætum ekki sjálfir starfrækt fossana; við yrðum að fá aðra menn til þess; okkur skorti þekkingu, og torvelt okkur hjer í fásinninu að ná í þá þekkingu, er slík stóriðja þyrfti að byggjast á. Það má vel vera, að þetta sje torvelt, en þó held jeg að of mikið sje úr því gert að sækja viskuna eða þekkinguna til Danmerkur. Þar held jeg tæplega að hún sje í svo ríkum mæli, að okkur ætti sjerstaklega að vera kappsmál að leita þangað. Ástæðulaust að halda, að fossafjelagið Ísland ráði eitt yfir allri slíkri þekkingu. Jeg hygg, að miklu meira sje um að vera í ýmsum öðrum stóriðjulöndum, svo sem fossalöndunum Noregi og Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Jeg hygg, að til þessara landa sje meira að sækja heldur en fossafjelagið Ísland hefir að miðla, og var því óþarfi að bregða þeirri grýlu upp hjer í háttv. deild, að það fjelag eitt væri þess umkomið að leiða okkur í allan sannleika.

Að svo mæltu læt jeg staðar numið. Það eru fleiri, sem þurfa að taka til máls, og óþarfi að fjölyrða um þetta frekar.