12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

45. mál, Sogsfossarnir

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get vel skilið afstöðu háttv. þm. Ak. (M. K.), þar sem hann segir, að ekki sje mikið útlit fyrir, að erlent fjármagn fáist til þessa rekstrar í náinni framtíð. Það getur vel verið, að slíkt sje örðugra nú en áður. En ef á annað borð fæst útlent fje til nokkurra fyrirtækja hjer, þá mundi það fást til þessa. Og það er auðvitað mál, að til virkjunar Sogsfossanna þarf útlent fjármagn. En jeg vona fastlega, að slíkt fje sje hægt að fá, og mætti þá síst standa á rannsóknunum; það ætti öllum háttv. þm. að skiljast. Jeg hafði þess vegna haldið, að þetta frv. mundi ganga mótmælalaust í gegn um þingið, ekki síst þar sem stjórninni var í raun rjettri í fyrra veitt heimild til að láta rannsaka málið. En stjórnin kaus heldur að hafa þessa heimild í lagaformi en þingsályktunarformi.

Jeg set mig ekki á móti því, að bæði frv. og þingsályktunartill. sú, sem nú er fram komin, verði samþ. En þá vildi jeg óska þess, að þingsályktunartillagan yrði borin upp í fleiri liðum, svo fella mætti niður úr henni það, sem einnig er tekið fram í frv.

Þeir aftur á móti, sem vilja að eingöngu um ríkisrekstur sje að ræða, geta þá komið fram með brtt. til 3. umr., ef þeim sýnist svo.