17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

45. mál, Sogsfossarnir

Jón Baldvinsson:

Till., sem jeg flyt nú, eru í samræmi við athugasemdir þær, sem jeg gerði við frv. við 2. umr. Mjer fanst það gefið í skyn í frv., að öðrum væri ætlað að virkja en ríkinu. í þessu styrktist jeg, er jeg heyrði ræðu hv. frsm. (J. Þ.), því að hann gaf í skyn, að ætlast væri til að fossafjelagið Ísland ætti að samþykkja mann þann eða menn, sem rannsóknina gerðu. Þetta átti að vera tryggingarráðstöfun, en hver sem ætlunin er, er fjelaginu „Ísland“ ætlað að hafa hönd í bagga með þessum rannsóknum. Þetta gerir það að verkum, að mjer virðist frv. benda í þá átt, að öðrum en ríkinu sje ætlað að virkja. Jeg fer þá fram á það, að 2. gr. sje feld burt, því að þau ákvæði eru í henni, sem gefa ástæðu til að ætla þetta. Jeg verð að telja það óheppilegt, ef fjelaginu „Ísland“ verður falin þessi rannsókn, því að við eigum undir högg að sækja við fjelagið um vatnsrjettindi þess í Soginu. Jeg held, að 1. gr. gefi stjórninni nægilega heimild til rannsókna, og þarf þar engu um að breyta. Og þau tryggingarákvæði önnur, sem felast í 2. gr., er óþarfi að taka fram; stjórnin hefir fulla heimild til þess að framfylgja þeim, ef henni lýst svo. Þess vegna er algerlega hættulaust að fella niður 2. gr„ en með því er útilokaður sá misskilningur, sem komist gæti að og jeg hefi bent á.

Hin brtt. fer aðeins fram á að skýra nánar 3. gr.; hún fer fram á, að rannsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði og teljist til virkjunarkostnaðar. Ef þessi till. verður ekki samþykt, er á líkan hátt og í 2. gr. frv. gefið í skyn, að aðrir en ríkið eigi að virkja, en það væri óheppilegt að slá því á nokkurn hátt föstu eða láta það skína út úr frv. Jeg held, að till. mínar geri stjórninni heimildina ekki erfiðari, og er háttv. deildarmönnum þess vegna óhætt að samþykkja þær.