17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

45. mál, Sogsfossarnir

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Efni 2. gr. lýtur ekki eingöngu að því, að rannsóknin geti verið falin fossafjelaginu „Ísland“. Stjórnin hefir yfirleitt ekki mönnum á að skipa, sem færir eru til þessara framkvæmda. Það er hugsanlegt að hægt sje að fá menn frá Noregi eða Svíþjóð, frá ríkisstarfrækslunni þar; en það er aðeins rjett hugsanlegt. Allar líkur benda á það, að þessa rannsókn verði að fela einhverju erlendu verkfræðingafirma, sem hafa það að atvinnu að framkvæma slík verk. En ef erlendir menn framkvæma rannsóknina, þá er hætt við, að þeir sendi menn hingað upp til mælinga, vinni síðan úr því heima hjá sjer og sendi aðeins hingað aðalteikningar og áætlanir. Þá er hjer enginn maður, sem fylgst hefir með verkinu og hefir nákvæma þekkingu á því. Tilgangur 2. gr. er að fyrirbyggja, að þannig verði farið að, eða að sjá um, að þeirri þekkingu verði haldið í landinu, sem fengist hefir við rannsóknina.

Milliþinganefndin sá ekki annað ráð betra til þess að tryggja þetta en að ákveða að skipa skyldi verkfræðing, sem væri í þjónustu stjórnarinnar, til þess að fylgjast með allri rannsókninni. Jeg vona að þetta nægi, til þess að gera deildinni skiljanlegt, að það er þýðingarmikið, að þessa sje gætt, og þess vegna væri það stórskemd á frv., ef 2. gr. væri feld burt.

Það er rjett hjá háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að greinin er orðuð svo, að ekki er útilokað, að rannsóknin verði falin einhverju fossafjelagi, en það er ekki líklegt, að sú leið verði valin. Fossafjelagið „Ísland“ hefir engum sjerfræðingum í þessu efni á að skipa, og er því ekki ástæða til að fela því rannsóknina. Vitanlega getur það fengið sjerfræðinga með því að borga þeim, en það geta einnig allir aðrir.

Það er satt, að stjórnin getur gætt þeirra tryggingarráðstafana, sem 2. gr. fjallar um, þó að svo sje ekki ákveðið í lögum, en það er altaf tryggara að hafa lagaákvæðið. Þó að jeg treysti núverandi stjórn til þess að annast þetta, þá ber þess að gæta að rannsóknin getur varað mörg ár og á þeim tíma geta orðið stjórnarskifti, og það oftar en einu sinni. Jeg tel því sjálfsagt að halda 2. gr., og vona að sú brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) verði ekki samþykt.

Um brtt. við 3. gr. hefi jeg lítið að segja. Eins og háttv. þm. (J. B.) tók fram er það alveg óbundið nú, hvort ríkið virkjar eða einstakir menn eða fjelög, og það er álit manna yfirleitt, að best sje að halda þessu opnu. Jeg held, að ótti háttv. þm. (J. B.) sje því ástæðulaus; það er ekkert gefið undir fótinn með það, að ríkið eigi síður að virkja en aðrir. 3. gr. getur því staðið að þessu leyti.

En það eru í henni ákvæði, sem jeg man að háttv. þm. Dala. (B. J.) lagði mikla áherslu á í milliþinganefndinni, og það með rjettu. Það er gert ráð fyrir, að ef sjerleyfi verður veitt, en sjerleyfishafi getur ekki notað sjerleyfið og engin virkjun verður, þá eigi ríkið ekki að bera rannsóknrkostnaðinn. Það er tíska að setja viðurlög, þegar sjerleyfi er veitt, við því ef það er ekki notað. Þessi viðurlög mætti að vísu setja í hvert skifti, og það verður að miklu leyti gert, en jeg er viss um að betra sje að hafa í lögum einhvern almennan grundvöll til að byggja á, t. d. eins og þennan, sem jeg hefi minst á, að raunsóknarkostnaður falli á sjerleyfishafa. Það segir sig sjálft, að ekki er hægt að telja rannsóknarkostnaðinn til virkjunarkostnaðar, þegar engin virkjun verður.

Jeg verð þess vegna að leggjast á móti báðum þessum till. Nefndin hefir ekki haft tækifæri til þess að ræða þær, og get jeg því ekki sagt, hvaða afstöðu hún tekur til þeirra, en mjer þykir líklegt, að sú afstaða hefði orðið lík þeirri, sem jeg hefi lýst.