17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

45. mál, Sogsfossarnir

Jón Baldvinsson:

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir viðurkent það, að þær tryggingarráðstafanir, sem felast í 2. gr. geti stjórnin gert, þó að greinin falli burt. Eins hefir hann viðurkent, að tryggingarráðstöfun 3. gr. megi setja í sjerleyfislög í hvert skifti. Till. mínar geta því ekki orðið til þess að draga neitt úr þessum tryggingarráðstöfunum, enda hefði jeg ekki borið þær fram, ef svo hefði verið. En mjer þykir óþarfi að gefa í skyn í þessum lögum ákveðinn skilning á því, hver virkja skuli, en mönnum kemur saman um að láta þeirri spurningu ósvarað í þessum lögum. Og jeg vil þess heldur fyrirbyggja þetta, þar sem skilningurinn, sem fram er haldið, er sá, sem jeg tel, að ekki ætti að felast í frv.

Jeg vona, að engum blandist hugur um, að heldur er ýtt undir þann skilning, að aðrir virki en ríkið, enda hóf háttv. þm. (J. Þ.) ræðu sína á því, að í 2. gr. fælist ekki eingöngu það, að fela mætti fjelaginu „Ísland“ þessa rannsókn. Það er satt hjá þm. (J. Þ.), að það felst meira í gr., en þetta felst einnig í henni eins og hann hefir viðurkent. Seinna í ræðu sinni reyndi háttv. þm. (J. Þ.) að draga úr þessu og sagði, að „Ísland“ stæði ekki betur að vígi en aðrir, og því væri ástæðulaust að fela því rannsóknina. Það kveður nú við annan tón en um daginn, þegar hann var að svara háttv. 1. þm. S.-M, (Sv. Ó.). því þá taldi sami háttv. þm. (J. Þ.) „Ísland“ ráða yfir mestri þekkingu í þessum málum af öllum fjelögum í Danmörku.

Þegar þess er gætt, að ekkert tapast við till. mínar, en misskilningi er rutt úr vegi með þeim, vona jeg, að háttv. deild greiði þeim atkv.