17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

45. mál, Sogsfossarnir

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að láta undrun mína í ljós yfir till. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.). — Hann segist með þeim vilja auka trygginguna, en tekur þó á burt ýmsar aðrar tryggingar, sem eru í 2. gr. frv. Annars er þetta orðið svo margrætt á þingi og í milliþinganefndinni, að óþarfi er að fjölyrða um það hjer.

Þó vil jeg bæta því við, að í 3. grein er ákvæði, eins og háttv. framsögum. benti á, sett inn til þess að þeir, sem leyfi hafa fengið til virkjunar, geti ekki frá því hlaupið á burt og sloppið við að greiða rannsóknarkostnaðinn, ef þeir heyktust á fyrirtækinu sjálfu.

Það má vel vera, að einhverjum verði leyfð virkjun, en hann komi henni ekki í framkvæmd, og hætti hann svo, þá borgar hann ekki virkjunarkostnað. Það mun verða erfitt að heimta inn skuldir ríkissjóðs, þegar tryggingarákvæðunum er kipt á burt. Þetta vill þingmaðurinn gera, en veit ekki hvað hann meinar með því.