10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

1. mál, hlutafélög

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Hlutafjelög eru orðin afaralgeng í öllum menningarlöndum, svo sem kunnugt er, jafnvel svo algeng, að nú ráðast einstaklingar sjaldnast í fyrirtæki, sem mikils fjár þarf til eða mikil áhætta fylgir, nema með því móti að stofna hlutafjelag og láta það annast fyrirtækið. Ef eigi væri sú leið, að stofna hlutafjelög, mundi því oft eigi fást nægilegt fjármagn til stórfyrirtækja. Hlutafjelög geta því verið til mikils gagns, beinlínis til mestu þjóðþrifa. Því ber ekki að neita, að heimild sú, sem venjan og löggjöfin hefir helgað, til þess að stofna hlutafjelög og starfa með þeim, hefir oft verið notuð í öðru skyni en löglegt er. Það er því mjög mikilsvert, að svo sje um búið, að sem minst hætta sje á, að fjárglæfrar geti verið framdir í sambandi við þau. Það er einkum hlutverk hlutafjelagalöggjafar að vernda almenning að þessu leyti. En jafnframt ber að taka hitt til greina, að gera mönnum ekki óþarfa óþægindi eða leggja of miklar hindranir í veg fyrir stofnun hlutafjelaga og starfsemi. Hjer á landi hafa verið stofnuð tiltölulega mörg hlutafjelög á síðustu árum, og þeim fjölgar óðum. En löggjöf landsins er mjög fátæk af ákvæðum um hlutafjelög. Þau eru stofnuð og þau starfa að mestu eftir reglum, sem leiða má af almennum grundvallarreglum löggjafarinnar. Þörfin fyrir samfeld lög þess efnis er því auðsæ, enda fyrir löngu viðurkend. Árið 1914 var samþ. hjer í neðri deild hins háa Alþingis tillaga til þingsályktunar um að skora á landsstjórnina að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frumvarp til laga um hlutafjelög, og frá þeim tíma hefir þó alt viðskiftalíf vort orðið stærra og margbrotnara og hlutafjelögum stöðugt fjölgað. Það er því að óskum hins háa Alþingis, að hæstv. stjórn hefir hrundið þessu máli af stað, með því að hún hefir nú lagt fyrir þingið frv. það, sem hjer liggur fyrir til 2. umræðu í háttv. þingdeild. Frumvarpið hefir gengið í gegn um háttv. Ed. og hafa verið gerðar þar við það nokkrar breytingar; flestar smávægilegar nema ein, um atkvæðisrjett hluthafa. — Allshn. hefir haft frv., eins og það nú er, með áorðnum breytingum, til athugunar á mörgum fundum sínum, og þó hún viðurkenni það ofverk fyrir þingnefnd, með öðrum önnum, að rannsaka ítarlega jafnmikið mál eins og hjer er um að ræða, og að við því megi búast, að með reynslunni geti það komið í ljós, ef frv. verður að lögum, að einhver ákvæði vanti í það eða einhverjum ákvæðum sje ofaukið, þá hefir nefndin ekki sjeð ástæðu til að gera við það breytingar, sem til bóta gætu leitt, og leggur hún því til, að frv. verði samþ. óbreytt. Samanber þskj. 339.

Eftir að nefndin hafði afgreitt frv. þannig til háttv. þingdeildar, hafa komið fram brtt. við það frá háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.). Samanber þskj. 358. Nefndin hefir tekið þessar brtt. til athugunar með samanburði við frv. og ekki getað fallist á þær, nema 4. breytingu við 29. gr. frv., og þó með þeim takmörkunum, sem sjá má á þskj. 389. Jeg skal svo leyfa mjer að fara stuttlega yfir brtt. á þskj. 358. Þá er það fyrst breyting við 10. gr. frv., a-liður. Nefndin telur ákvæði frumvarpsins betra og að það veiti fjelaginu meiri tryggingu, að fjórði hluti hlutafjárins sje lagður fram við byrjun starfrækslunnar en aðeins einn tíundi hluti. B-liðinn álítur nefndin mjög lítils um vert atriði og síst neina verulega bót, svo að vert sje að hrekja frv. milli deilda fyrir þá breytingu.

Um b-lið 10. gr. vil jeg aðeins segja það, að nefndin getur ekki gert þann mun á því, hvort fjelag sje tilkynt til skrásetningar áður en það tekur til starfa, eða að það sje tilkynt ekki síðar en mánuði eftir að það er löglega stofnað, sem að sjálfsögðu er þá um eða áður en það tekur til starfa.

Um tvær næstu brtt. háttv. þm. (Ó. P.) þarf jeg ekki að fjölyrða; nefndin getur ekki heldur fallist á þær.