11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

1. mál, hlutafélög

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hafði margt misjafnt að þessu frv. að finna. Jeg verð nú samt að álíta, að frv. þetta sje að öllu sómasamlegt.

Jeg átti ekki von á því frá lögfræðingi, að hann fyndi ástæðu til að hafa lög hlutafjelaga öðruvísi hjer en annarsstaðar. Hann viðurkendi þó, að lögin væru samræmileg annarsstaðar á Norðurlöndum. Það kann að vera svo með einstöku atriði, en að staðhættir sjeu hjer svo gagnólíkir, að alt önnur lög þurfi, það held jeg sje ekki rjett hjá háttv. þm. (Gunn. S.).

Að fjelagar hlutafjelaga sjeu dreifðari hjer en annarsstaðar, er hin mesta fjarstæða. Jeg veit ekki annað en að það eigi sjer oft stað, að fjelagar hlutafjelaga sjeu út um öll lönd.

Annars yrði langt að bíða eftir nýmælum, sem vissa væri fyrir, að ekkert þyrfti að breyta, er til framkvæmda kemur. Jeg álít því hið mesta óráð að samþykkja ekki þetta frv. Það er rjett hjá atvrh. (P. J.), að stjórnin leggur ekki neina sjerstaka áherslu á þetta. Það er áreiðanlegt, að hlutafjelög verða á mun tryggari grundvelli eftir þessi lög.