18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

1. mál, hlutafélög

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Síðan frv. þetta fór hjeðan úr deildinni hefir það tekið nokkrum breytingum.

Á 23. gr. hefir orðið sú breyting, að 5. liður er feldur burt, en þar er svo ákveðið, að stjórn hvers hlutafjelags skuli halda skrá yfir hluthafa og um það, hver fer með atkvæði.

Jafnvel þótt allshn. þessarar deildar þyki þessi breyting síst til bóta, þá þykir henni þetta atriði ekki svo mikils virði, að hún vilji deila við háttv. Nd. um það.

Næst er breyting á 29. gr. Þar er nú svo ákveðið, að í samþyktum hlutafjelags megi heimila fjelagsstjórninni að gefa út nýtt bráðabirgðaskírteini eða hlutabrjef, í stað glataðs, ef fjelagsstjórinn telur nægar sönnur færðar á, að skírteinið eða hlutabrjefið hafi eyðilagst, enda nemi upphæðin eigi meiru en 200 kr. En samkvæmt því, sem frv. var frá stjórninni og er það fór hjeðan úr þessari háttv. deild, þá mátti aðeins ógilda hlutabrjefið með dómi.

Nefndin í þessari deild getur nú fallist á þessa breytingu, enda gerði allshn. háttv. Nd. breytinguna á vitorði allshn. hjer.

Þá kem jeg að aðalbreytingunum á frv. við 24. og 31. gr. Eins og frv. nú kemur frá hv. Nd., þá má stjórn hlutafjelaga auka hlutafje, nema öðruvísi sje ákveðið í samþyktum fjelagsins. Þetta getur nefndin hjer í þessari deild ekki ráðið til að samþykkja, því ekki er rjett að leggja svo mikið vald í hendur stjórnum í hlutafjelögum, því hlutafjáraukning, og þá sjerstaklega nýir menn, sem koma inn í fjelögin við það, geta haft mikil áhrif á fjelagsskapinn, og þá í óhag ef illa er valið. Rjett virðist því að taka upp aftur þau ákvæði, sem voru í frv., er það fór hjeðan úr deildinni, og sniðin voru eftir samskonar ákvæðum í sænsku lögunum, þar sem stjórnin aldrei má sjálf ákveða hlutafjáraukann, en aðeins bjóða hann út með væntanlegu samþykki hluthafafunda. Með þessu ákvæði er svo um hnútana búið, að hægt er í sjerstökum tilfellum að flýta fyrir hlutafjárútboðinu, en hinsvegar er með þessu ákvæði ekkert vald tekið frá hluthafafundinum í þessum málum, því að hann leggur hið endanlega samþykki eða neitun á hlutafjárútboðið.

Þá er brtt. við 31. gr. á sama þskj. Eins og frv. nú kemur frá háttv. Nd. hafa hluthafarnir atkvæðisrjett eftir hlutamagni sínu, ef engin ákvæði eru um atkvæðagildi hlutanna í samþyktum fjelagsins, en í þeim má ákveða svo, að enginn hluthafi fari með nema einn þriðja atkvæða á hluthafafundum. í frv. eins og það fór hjeðan var aftur svo ákveðið, að enginn hluthafi mætti fara með meira en fimta hluta atkvæða, og þessu var ekki hægt að breyta með ákvæðum í samþyktum. Nefndin leggur nú til, að þetta ákvæði sje sett inn aftur, og er rjett að taka fram, að samskonar ákvæði er í sænsku hlutafjelagslögunum. Það virðist ekki heppilegt, þó einhver ráði yfir fjármagni miklu, að hann geti náð undir sig öllum ráðum í fjelögunum. Með því eru oft útilokuð ráð þeirra manna, sem mesta þekkinguna hafa, þó þeir ráði yfir minna fjármagni, og þetta getur orðið skaðlegt fyrir hlutafjelagsstarfsemina. Hinsvegar engin hætta á, að fjármagnið geti samt ekki notið sín á ýmsa vegu, þó þessar skorður sjeu settar. Má og minna á í þessu sambandi, að þegar Eimskipafjelag Íslands var stofnað, þá var það gert að skilyrði af hálfu fjelagsins, að landssjóður hefði eigi atkvæðisrjett í hlutfalli við hið framlagða hlutafje.

Samkvæmt því, sem jeg hefi tekið fram, leggur nefndin því til, að 2. brtt. á þskj. 624 verði samþykt.