18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

1. mál, hlutafélög

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Þetta er misskilningur hjá háttv. þm. (H. St.). Hann segir, að breytingin sje eingöngu í því fólgin, að einum fimta sje breytt í einn þriðja. Ef munurinn væri ekki annar, þá væri eigi vert að gera þetta að ágreiningsefni. En hjer er um annað og meira að ræða. Í frv., eins og það er samþ. í Nd., segir, að í samþyktum megi ákveða, að enginn hluthafi geti farið með meira en einn þriðja atkv., en í brtt. okkar er skýlaust tekið fyrir, að hluthafar geti farið með meira en fimtung atkvæða. Munurinn er þarna svo auðsær, að Nd. vill aðeins áskilja hverju fjelagi að kveða á um þetta, en allshn. þessarar hv. deildar vill skipa fyrir um þetta í hlutafjelagslögunum. Og þetta atriði leggur nefndin hjer áherslu á, að hafa slíka samþykt fastákveðna í hlutafjelagslögunum.