20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

1. mál, hlutafélög

Jakob Möller:

Háttv. Ed. hefir fært í sama horf og áður var það ákvæði frv. er snertir atkvæðisrjett fjelagsmanna. Nú hefir ekki unnist tími til að koma í tæka tíð með brtt. svo frv. komist í sama horf og það var, þegar það fór hjeðan síðast. Tíminn hefir verið svo stuttur, að ekki hefir verið hægt að prenta hana. Þess vegna hefi jeg skrifað upp brtt. í þessa átt, og vænti jeg, að hún fáist borin undir atkvæði þó hún komi ekki fram fyr en nú.

Brtt. er við 31. gr. og hljóðar svo: í stað orðanna: „Enginn hluthafi .... í fjelaginu“ komi:

Í samþyktum má ákveða, að enginn hluthafi geti farið með meira en 1/3 samanlagðra atkvæða í fjelaginu.

Þetta mál er orðið svo þaulrætt, að óþarfi virðist að fjölyrða um það nú. Eftir þeim upplýsingum og skýringum, sem gefnar hafa verið hjer í háttv. deild, sýnist ákvæði frv. þýðingarlítið, því altaf má fara í kring um það, og þeir menn, sem eiga meira en einn fimta í hlutafjelagi, geta látið aðra fara með atkvæði sín á fundum fjelagsins. En þar sem háttv. deild hefir áður viljað breyta þessu til hins betra, geri jeg ráð fyrir, að henni hafi ekki svo snúist hugur, að hún vilji nú, að hjegómi þessi sje í lög leiddur. Vona jeg því, að hæstv. forseti taki þessa skrifuðu brtt. mína til greina og leiti afbrigða hjá háttv. deild um það, að hún megi koma fram og til atkvæða.