20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

1. mál, hlutafélög

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Jeg þarf ekki upp að standa nú til þess að tala um málið, sem fyrir liggur. Það hefir ekkert nýtt komið fram í því, sem tilefni gefi til þess. Mjer er auk þess ókært að lengja umræðurnar mikið, því að jeg legg áherslu á, að þessu máli verði ráðið til lykta fyrir þingslit.

Jeg get þó ekki gengið fram hjá ummælum háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), meður því að það var árás á mig sem persónu og allsherjarnefnd sem starfandi nefnd. Mjer hefir oft fundist það ærið óviðeigandi, sem þessi háttv. þm. (Jak. M.) hefir sagt í þessari háttv. deild, en þó vart heyrt jafnhjáleit ummæli sem þau, er hann hefir hjer um haft.

Hann er að fást um það, hvernig þingmenn hreyfi hendur sínar eða tali úr sætum sínum. Jeg álít, að mjer sje heimilt að haga mjer þar sem mjer líst, svá fremi jeg geri það ekki óþinglega, og er þá forseta að víta. Jeg get hugsað, þótt jeg hafi hönd fyrir auga, en mjer hefir oft fundist, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hafi ekki veitt af að styðja hönd á höfuð sjer og hugsa, áður en hann talaði.

Þá veittist þessi háttv. þm. (Jak. M.) að allsherjarnefnd mjög svo ómaklega. Þarf síst að bregða henni um, að illa hafi hún starfað og látið mál óathuguð frá sjer fara. Hún hefir nú haldið 48 fundi og afgreitt 29 mál. Hann hjelt því fram, að slíkt væri háttur þessarar nefndar að setjast á og salta góðar og nauðsynlegar breytingar á gildandi og gömlum lögum — svo sem bannlögunum — en ýta fram af þráa nýjum lagafrumvörpum, óathuguðum og illa undirbúnum, þar á meðal frumvarpi því, sem hjer er til umræðu í háttv. deild. En það er einber vitleysa, að nefndin hafi ekki athugað það. Hún tók það til rækilegrar yfirvegunar, eins og öll þau mál, er til hennar var vísað, og sem hún hefir nú afgreitt 29 af 31. Breytingar við bannlögin, sem fyrir nefndinni hafa legið, hefir hún einnig athugað, en af sjerstökum ástæðum hefir meiri hluti hennar ekki treyst sjer til að koma fram með tillögur sínar að þessu sinni, og er það mál því annað af tveim, er nefndin hefir ekki afgreitt, þeirra 31, er henni hafa borist á þessu þingi, og það af ástæðum, sem jeg ógjarna vil að þessu sinni greina.

Þetta, eins og önnur ummæli þessa hv. þm. (Jak. M.) um nefndina, eru órökstuddir sleggjudómar og marklaust hjal. Og situr slíkt allilla á háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), því að ein nefnd, sem hann á sæti í, hefir legið nokkuð lengi á störfum sínum, og mun hann hafa átt drjúgan þátt í að tefja hana.

Háttv. þm. (Jak. M.) sagði, að það yrðu að vera mismunandi ákvæði í lögunum eftir mismunandi staðháttum. Jeg get endurtekið það, að þetta ákvæði á við í öllum löndum. Það er vart hægt að hugsa það, að svo mikill lagabálkur, sem þessi er, sje svo vel ger, að engu þurfi að breyta er stundir líða fram. Hygg jeg, að þótt þessum lögum verði breytt með reynslunni, þá verði þetta ákvæði þó síst burtu numið.

Jeg skal svo ekki eiga meiri orðaskifti við þennan háttv. þm. (Jak. M.) að sinni.