07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

16. mál, sala á hrossum

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að lengja umr. að þessu sinni. Það er að eins viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (P. J.) sagði um afskifti sýslunefnda í þessu máli, og skilyrði, sem þær, eða hrossahjeruðin, kynnu að setja, að jeg vildi segja fáein orð.

Jeg geri nefnilega ráð fyrir því, að ekki muni standa á svari sýslunefnda eða hrossahjeraða, og að svörin muni verða á einn veg, að allir hlutaðeigendur telji sig samþykka ráðstöfun þessari, þó að því leyti, að rjettast muni, eins og stendur, að láta landsstjórnina hafa hrossasöluna. En það þykist jeg jafnvel vita, að samþykt þessi yrði ekki að öllu leyti skilyrðislaus, og búast mætti við, að ýmsar kröfur yrðu framsettar stjórninni til athugunar og eftirbreytni. Að minsta kosti er mjer kunnugt um það, að sumir óska að hrossunum verði víðar skipað út á landinu heldur en raun varð á síðastliðið sumar, eða eingöngu hjer í Reykjavík. Það sjest best á skýrslu þeirri um útflutning hrossanna, sem legið hefir frammi til athugunar í landbn., að allur innanlandskostnaður við hrossasöluna hefir orðið undarlega mikill, enda hafa þær raddir heyrst, sem telja hann óþarflega háan. En það verður líklega tækifæri til þess að athuga það betur síðar, svo fram hjá því geng jeg nú.

En einmitt þetta atriði út af fyrir sig ætti að vera nóg til þess, að hróflað væri við gerðum stjórnarinnar í þessu máli, og ósanngjarnt getur það ekki talist, þó að sýslunefndir, eða þeir, sem hjer eiga hlut að máli, beini þeirri ósk til stjórnarinnar, að hún íþyngi ekki landsmönnum með óþarfa útgjöldum á þessu sviði.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) taldi það óþarfa að spyrja hrossahjeruðin eða sýslunefndirnar til ráða í þessu máli, því allir væru sammála um að fela stjórninni hrossasöluna. En þó aldrei nema svo sje, þá getur það ekki talist óþarfi, þó að ýtt sje undir stjórnina, eða henni gefnar bendingar í þá átt, sem best þykir fara, máli þessu til bjargar. Og ekki þarf þetta á neinn hátt að tefja fyrir hrossasölumálinu. Allar þær sýslur, sem hjer eiga hlut að máli, að einni undantekinni, hafa enn ekki haldið aðalfund sinn, en líkindi til að þær geri það áður en langt um líður, svo það ætti að vera nógur tími enn að skjóta máli þessu heim í hjeruðin.

Jeg leyfi mjer í þessu sambandi að kasta fram nokkrum spurningum. er jeg vona að hæstv. atvrh. (P. J.) svari. Það ganga ýmsar sögur um þetta hrossasölumál, sem jeg tel rjett að slegið sje á strax og svarað orðrómi þeim, sem um það gengur.

Jeg heyrði það sagt í sumar, að breska stjórnin hefði gert það að skilyrði um kaup á íslenskum hestum, að ríkisstjórnin hjer hefði söluna í sínum höndum. Þetta hefir samt verið borið til baka, en mjer er ókunnugt um, hverju trúa beri, og þessvegna leyfi jeg mjer að spyrja hvað satt sje í orðrómi þessum. Þá hefir líka verið sagt, að samningurinn um sölu á hrossunum hafi verið undirritaður af hálfu stjórnarinnar áður en bráðabirgðalögin voru útgefin og staðfest, og einnig hefir heyrst, að hærra tilboð hafi komið í hrossin eftir að samningarnir voru gerðir.

Mjer finst nú ekki ósennilegt, að ýmsum verði í þessu sambandi, og að óupplýstu máli, að álykta sem svo, að breska stjórnin, eða þá Zöllner. muni hafa spilað talsvert mikla „rullu“ í þessu máli, þar sem kunnugt er, að stjórnin einmitt fjekk kol frá Englandi með skipum þeim, sem fluttu út hrossin. Þessvegna leyfi jeg mjer að spyrja svo:

Höfðu ekki kolakaupin nokkra þýðingu í hrossasölumálinu, og voru ekki hagfeldari samningar með verð og farmgjald?

Jeg tel nauðsynlegt, að þessum spurningum sje svarað, svo að menn sjeu ekki úti um sveitirnar að hlaupa með sögur, sem vekja tortrygni og ef til vill spilla fyrir góðu máli.

Jeg get eigi af eigin þekkingu bygt á öðru en því, sem komið hefir fram í landbn., en það er skýrslan, sem jeg mintis á áðan — skýrsla frá einum manni um hrossasöluna síðastliðið sumar.

En hafi verið hrapað að samningum þessum. t. d. verið tap að semja við Breta og samningurinn gerður áður en lögin voru gefin út, þá er auðvitað hjer um mikið atriði að ræða og merkilegt, sem ekki má í hel þegja.