16.03.1921
Efri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

76. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Þó að frv. þetta hafi farið nefndarlaust í gegnum háttv. Nd., þá er ekki sjálfsagt að gera því hjer að öllu leyti sömu skil. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji bregða fæti fyrir það, nje til þess að varna því, að sú grundvallarhugsun nái fram að ganga, sem í því felst. En til mála gæti komið að breyta frv. í heimildarlög, sem gætu náð til fleiri kaupstaða en Akureyrar. Það munu víða í kaupstöðum vera tekin gjöld af lóðum. En mörg bæjarfjelög finna til þarfarinnar á því að auka föstu tekjumar, og því væri vert að athuga, hvort eigi væri rjett að gera þetta frv. að heimildarlögum. Sama er að segja um kauptún, sem eru hreppsfjelag út af fyrir sig. Það rekur hvort sem er bráðlega að því, að eitthvað verður að gera, til þess að afla sveitarsjóðum fastra tekna. Hjer er að ræða um eina slíka tilraun, en hún nær ekki til nema eins bæjarfjelags.

Það hefir farist fyrir, að stjórnin legði fram slíkt frv., jafnhliða skattafrv., og þó hefði verið ástæða til þess, því að sveitargjöldin eru þyngstu skattarnir á þeim, sem nokkurs verulegs eru umkomnir.

Eins og menn muna, samdi skattamálanefndin, sem skipuð var 1907, frv. til laga um tekjur sveitarsjóða. Var þar gert ráð fyrir föstum tekjum sveitarsjóðanna, og að aðalskatturinn væri fasteignaskattur, og svo hundraðsgjöld af föstum tekju- og eignarskatti.

Það er ef til vill ekki rjett að fara langt út í þetta mál að svo stöddu, þar sem þetta frv. er svo takmarkað. En jeg vildi aðeins vekja athygli háttv. deildar á þeirri nauðsyn, sem hjer er um að ræða, og sem helst þyrfti að bæta úr á þessu þingi.

Jeg legg því til, að þessu frv. verði vísað til nefndar, og þá helst til háttv. fjhn., að umr. lokinni.