01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

76. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það er ekki gott fyrir mig að mæla móti dagskrá háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), því að hún fer mjög í sömu átt og álit nefndarinnar. Þó er þar eitt atriði, sem mjer þykir athugavert, þar eð það er til þess heldur að draga úr því, sem nefndin hefir sagt. Í dagskránni er stjórninni falið að koma fram með frv. um þetta efni „sem fyrst“. Þetta er teygjanlegt og ekki nærri eins ríkt að orði kveðið og í nál., þar sem ætlast er til, að þetta frv. komi fyrir næsta þing.

En það, sem einkum ber á milli háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) og nefndarinnar, er það, að hann vill ekki láta þetta frv. ganga fram nú. Nefndin aftur á móti leit svo á, að mikil bót væri að þessari breytingu fyrir hlutaðeigandi kaupstað, og væri þá engin ástæða til þess að láta hann bíða.

Jeg lít svo á, að það hafi verið afturför þegar sveitarsjóðirnir voru sviftir föstum tekjustofnum. Fastir skattar og beinir eru rjettlátari en aðrir og geta oft jafnvel komið betur á heldur en niðurjöfnun, þótt hún eigi að heita að vera gerð eftir „efnum og ástæðum“. Þetta frv. eykur þá upphæð, sem Akureyrarbær fær inn með föstum sköttum, og eykur þá um leið rjettlæti. Þess vegna á háttv. deild ekki að aftra því, að Akureyri fái að njóta þess, þar til væntanleg endurskoðun hefir farið fram, jafnhliða og ákveðnir væru með lögum fastir tekjustofnar fyrir sýslusjóði og sveitarsjóði. Af þessum ástæðum leggur nefndin til, að frv. nái fram að ganga, en ekki vegna þess, að hún vilji tefja fyrir því, að hin margumrædda endurskoðun þessarar löggjafar fari sem fyrst fram. Þvert á móti. Það kom meira að segja til tals í nefndinni að flytja þál.till., til þess að herða á því, og verður ef til vill gert. Og um hringlið, sem af því leiddi að samþ. þetta nú, og þurfa svo ef til vill að breyta því fljótt aftur, vil jeg aðeins segja það, að mjer virðist sem nú sje hringlað með flest lög og hrært í þeim ár frá ári; er það reyndar venja, sem jeg vil ekki ljúka lofsorði á, eu hlýtur að stafa af ofmikilli óvandvirkni löggjafanna.