01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

76. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg held, að farið hafi fyrir háttv. frsm. (G. Ó.) eins og mjer, að hann hafi ekki hugsað út í það, er mál þetta var til athugunar í nefndinni, að verið er að leggja sjerstakan skatt með frv. þessu á lóðareigendurna.

Menn vita ef til vill ekki, að í fasteignaskattsfrv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir að greiða skatt af þessum eignum. Það er gefin bending um það, að skattur skuli goldinn af jarðeignum, en engin bending gefin um lóðir. Jeg held, að hlutaðeigendur hafi ekki íhugað það, að með þessu er tvöfaldur skattur lagður álóðareigendurna.

Jeg sagði áðan, að lóðir væru yfirleitt hátt metnar. Jeg hygg, að lóðir á Akureyri sjeu yfirleitt sanngjarnt metnar. En jeg veit, að lóðir t. d. á Siglufirði eru svo hátt metnar, að það gengur ógegnd næst. Það er ekki af því, að mat á þeim sje rangt. Við höfum fengið upplýsingar um það hjá formanni yfirmatsnefndar í Eyjafjarðarsýslu. Hann segir þær metnar lægra en lægstu tilboð í þær. Jeg er sannfærður um það, að mat á þessum lóðum hrapar niður að 10 árum liðnum; það getur ekki staðið nema í augnabliksspenningi, í nokkurs konar brjálsemiskasti, sem gripið hefir fólkið svo víða þessi árin. En það var skylda matsmanna að meta eignir þessar eftir tilboðum, sem í þær höfðu fengist, og því eru þeir ekki álösunarverðir. Hvanneyrarhreppur, þar sem Sigulfjörður er í, er t. d. metinn helmingi hærri til skattgjalds en allar Vestmannaeyjar. Jeg mundi þó heldur kjósa Vestmannaeyjar, ætti jeg að kjósa um þessa staði til eignar.

Jeg held því, að ótímabært sje að samþykkja þetta frv. nú, og að Akureyrarbúar sjái, ef þeir taka málið til athugunar á ný, að hægt er að leggja skatt til bæjarsjóðs á aðrar og fleiri fasteignir með jafnmiklum rjetti og lóðir, og finna þá ef til vill leiðir, sem þeir ekki sjá nú.