06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

81. mál, sala á Upsum

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg þarf nú ekki mikið að segja, þó að jeg standi upp. Frv. þetta var afgr. hjer í háttv. deild fyrir nokkrum dögum, og er nú hingað komið aftur frá háttv. Ed., með þeirri einu breytingu, að 2. gr. hefir þar verið feld í burtu, vegna þess að hún „virðist með öllu óþörf og óviðeigandi“ og ber fyrir sig kirkjujarðasölulögin frá 1907, sem hafi þetta ákvæði að geyma.

Það var mjer að vísu ljóst, er jeg samdi frv., að greinin mundi ekki nauðsynleg, en af því að mjer var kunnugt um, að þetta sama ákvæði hafði verið sett í fyrverandi frv. fyrir sölu kirkjujarða þeirra, er samþ. hafa verið hjer á þingi, og get jeg í því sambandi nefnt Ögur og Sellón, sem samþ. var að selja á Alþingi 1919, þá gerði jeg ekki ráð fyrir, að þetta ákvæði yrði til þess nú, að þeyta frv. þessu milli háttv. deilda Alþingis.

En hins vegar get jeg sem sagt játað, að ákvæði þetta sje óþarfi, og vona því, að háttv. deild samþ. frv. eins og það er nú, að þessari umr. lokinni.

Aftur á móti get jeg ekki fallist á þá lýsingu á jörðinni Upsum, sem hv. landbn. Ed. setur í nál. sitt. Hún er mjög villandi. Mjer er ekki kunnugt um þau miklu gæði, sem þar eru talin upp, og t. d. skal jeg geta þess, að jörðin er í flestum vetrum undirlögð af snjó, og þess vegna fremur rýr til beitar, og um trjáreka hygg jeg að vart sje að ræða. En á Böggversstöðum, sem þar liggur rjett við, er alloft talsverður reki, og býst jeg við, að þetta hafi ruglast saman hjá háttv. landbn. Ed. En sá reki er allur á Böggversstaðasandi og þar er ekki um nokkurt ítak að ræða frá Upsum. Að vísu er þetta ekkert aðalatriði þessa máls, en jeg vildi láta þess getið, að jeg get, sem kunnugur maður, ekki fallist á þessar upplýsingar viðvíkjandi jörðinni.

Fleira hefi jeg ekki að segja, en vona, að háttv. deild samþ. frv. eins og það liggur nú fyrir.