06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

81. mál, sala á Upsum

Jón Baldvinsson:

Jeg vil nota tækifærið, úr því að frv. þetta er hjer aftur á ferðinni, að gera aths. mínar við það, eða öllu heldur mótmæla þeirri hættulegu leið, sem það stefnir inn á. Að vísu ljet jeg frv. þetta afskiftalaust, er það var hjer til umr. áður, en afstöðu minni til þessa máls: sölu opinberra eigna, lýsti jeg að nokkru í aths. mínum við annað frv., sem hjer var líka á ferðinni fyrir nokkrum dögum. Þá tók jeg það fram, að athugavert væri, að Alþingi heimilaði að selja opinberar jarðir, þó aldrei nema kauptún, sveitir eða sýslufjelög væri kaupandinn. Og það sem jeg átti við með því, og vil endurtaka nú, er það, að jeg tel þetta svo hættulega braut vegna þess, að dæmin einmitt sýna okkur, að jarðir þessar hafa á stundum komist í braskarahendur og gengið kaupum og sölum á milli einstakra manna. Jeg segi að þessi dæmi sjeu til, en jeg segi ekki, að þetta muni vaka fyrir þeim mönnum, sem þessi frv. flytja nú á þessu þingi.

Og nú er hjer fram komið enn þá eitt frv., sem heimilar landsstjórninni að selja prestssetrið Hvanneyri í Siglufirði, svo ekki er gott að vita, hvar þetta lendir. En úr því svona er haldið áfram, þá vil jeg að salan sje ekki leyfð nema með vissum skilyrðum, t.d. að ákvæði sje í lögunum um það, að hrepparnir eða kauptúnin geti ekki síðar meir selt jarðir þessar eða hluti þeirra einstökum mönnum.

Jeg bjóst nú ekki við, að hjer yrði farið svo fljótt yfir dagskrána eins og raun er á orðin, og hafði því ætlað mjer að koma með brtt. í þessa átt.

Þótt jeg búist við, að hreppurinn telji sig þurfa að halda á jörð þessari nú í bráðina, þá getur það breytst, og hjá hreppnum verður hún lausari fyrir til að komast í hendur einstakra manna, en það teldi jeg ver farið.

Jeg vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að hann flytti málið aftur á dagskrána, svo að mjer gæfist kostur á að koma með brtt. í þá átt, er jeg nefndi: að hreppurinn mætti ekki selja einstökum mönnum þessa jörð, þó að hann væri búinn að kaupa hana.