07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

65. mál, biskupskosning

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki tefja umræður lengi, því dagskráin er nokkuð löng.

Jeg fyrir mitt leyti er ekkert áfram um þá breytingu á veitingu biskupsembættisins, sem frv. þetta fer fram á. Jeg hygg, að íhald í þeim efnum sje heilbrigt, og að minsta kosti ekki rjett að breyta til, nema fyrra fyrirkomulagið hafi reynst illa. En svo hefir ekki verið í þessu máli, og jeg býst við því, að þó prestar hefðu kosið hina síðustu biskupa vora, mundu til þess hafa verið valdir sömu mennirnir, er þetta embætti hafa skipað.

En úr því, að óskir hafa komið fram frá prestunum í þá átt, sem frv. fer fram á, þá finst mjer bæði sjálfsagt og sanngjarnt að verða við óskum þeirra. Jeg mun því alls ekki spilla málinu, en fremur veita því lið.

Jeg er sammála hæstv. forsrh. (J. M.) um það, að málið sje athugað í nefnd, fyrst og fremst af því, að önnur bein till. hefir komið fram, er bendir á aðra leið í málinu. Er sjálfsagt, að nefndin athugi nákvæmlega, hvor lausnin mundi heppilegri, sú, sem synodus bendir á, eða hin, sem frv. fer fram á.

Ef sú aðferð er höfð, sem synodus hyggur vænlegasta, þá hefir biskupskosningin, að mínum dómi, miklu meira gildi, enda þá víst, að einhver yrði kosinn.

Sumt í þessu frv. er ekki verulega skýrt orðað, svo jeg hefi ekki skilið það almennilega. Þar er sagt í 2. gr., að kjósa skuli biskupsefnin í þeirri röð, sem mönnum þyki best við eiga. Fá þá þessir 3 menn allir sitt atkvæðið hver? Eða hefir efsti maðurinn t. d. 1 atkvæði, sá næsti 3/2 atkv.? Mjer er þetta ekki fyllilega ljóst.

Þá stendur í 3. gr., að sá sje rjett kjör inn biskup, er fái 3/5 atkvæða. Mjer skilst nú, að samkvæmt þessu geti tveir menn eða jafnvel þrír orðið rjett kjörnir biskupar, þar sem þrjá menn á að kjósa.

Að vísu getur þá stjórnin skorið úr, en þá þarf líka að gera ráð fyrir því.

Jeg hefi viljað benda nefndinni á þetta, því ef hún hafnar till. synodusar, þá þarf hún nauðsynlega að gera hitt frumvarpið skýrara.