18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

65. mál, biskupskosning

Jakob Möller:

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) segist hafa drepið á athugasemdir okkar. En hann hefir drepið á miklu fleira, og ræða hans hefir því verið bardagi við ímyndaðar athugasemdir. Mjer hefir aldrei dottið í hug að segja, að prestarnir sjeu yfirleitt á eftir tímanum í þeim skilningi, sem hann sagði. Háttv. þm. (S. St.) hefir ekki skilið mig. (S. St.: Jeg skildi þm. fullkomlega). Þá hefir hv. þm. (S. St.) rangfært orð mín. (S. St.: Nei). Þegar jeg sagði, að meiri hluti prestanna mundi að jafnaði vera á eftir tímanum, þá átti jeg einungis við trúmálastefnur, og sagði það beinum orðum; hitt er mjer mjög fjarri að segja eða meina, að prestar sjeu yfirleitt og í öllu á eftir tímanum. Það er síður en svo. En það má gera ráð fyrir því, að framþróunin komi fyrst fram hjá hinum yngstu, þeim, sem eru að búa sig undir prestsskapinn; en meiri hlutinn við kosninguna verða gömlu prestarnir, sem oftast eru íhaldssamari. Íhaldsstefnan mundi því ráða biskupskosningunni. Öll mótmæli hv. þm. (S. St.) gegn svívirðingum, sem hjer hafi verið bornar á prestana, eru því vindhögg. Það er stefna frv., sem hjer hefir verið hallmælt, en ekki kirkjan.

Háttv. þm. (S. St.) vitnar til þess, að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sjeu biskupar kosnir á líkan hátt og þetta frv. gerir ráð fyrir. Það mun rjett vera. En hverjir hafa ráðið því? Eru það ekki einmitt mestu afturhaldsseggirnir í trúmálum, sem mestu ráða á því sviði í þessum löndum?