10.03.1921
Efri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

77. mál, einkaleyfi til útgáfu almanaks

Flm. (Jóhannes Jóhannesson):

Þótt nafn mitt standi á frv. þessu sem flutningsmanns, er það ekki samið af mjer. Jeg flyt það eftir tilmælum hæstv. dómsmálaráðherra, og mjer virðist stjórnin eiga skildar þakkir fyrir, að hafa hrundið málinu á stað.

Frv. er ítarlegt og vel úr garði gert, að undanskilinni 12. gr., þar sem stendur, að Háskólinn hafi einkarjett á útgáfu almanaks fyrir árið 1922. Með því er vitanlega átt við, að einkarjetturinn byrji með útgáfu almanaks fyrir árið 1922. En þetta orðalag er mjer að kenna, og vona jeg, að væntanleg nefnd orði þessa gr. betur.

Málið er þannig vaxið, að það mun varla mæta neinni mótspyrnu. Greinargerð frv. er rækileg, og tel jeg því eigi þörf að bæta miklu við. Þar er skýrt frá því, að Háskólinn óskaði eftir þessum einkarjetti, og ennfremur því, að nokkur arður muni af verða, og er ákveðið í 10. gr., hvernig þeim arði skuli varið.

Jeg legg til, að málinu verði vísað til mentamálanefndar, að lokinni þessari umræðu.