15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Hv. frsm. meiri hlutans í 1. kjörbrjefadeild (S. St.) biður mig um að vera stuttorðan, og mun jeg reyna að verða honum að skapi.

Á síðasta þingi varði jeg rjettmæta kosningu, sem þingið sá sjer þó fært að ógilda. Þá voru kæruatriðin svo smávæg, að firnum sætti, að þau skyldu verða tekin til greina, og úrslitin þau, sem raun varð á. Þá var og kært yfir kosningu annars þingmannsins, en hinn ekki nefndur, og virtist því undarlegt, að annar þingmaðurinn gæti verið rjettilega kosinn, en hinn ekki.

Nú er kært yfir allri kosningunni og lagt til, að kosning þessara þriggja þingmanna Reykjavíkur sje ógild dæmd. Virðast og kæruatriðin það merkileg, og ágallar kosningar þessarar það margir og miklir, að undarlegt má þykja, að þingheimur vilji ekki um það ræða og telji kæru þessa markleysu eina.

Mjer finst hún merkileg, og jeg er þakklátur manni þeim, er bar hana fram, svo bæði mjer og öðrum gæfist ástæða til að fara nokkrum orðum um kosningaundirbúning hjer í höfuðborg ríkisins. Hefði kæran ekki komið, hefði alþjóð aldrei fengið að sjá, hversu vel bæjarstjórn vandar til kosninga Alþingis og tryggir rjett kjósendanna. Því er það furðulegt, að þingmönnum skuli hrjóta slík orð um kæru þessa og raun hefir á orðið, og að nokkrir þeir menn skuli finnast inni hjer, er telja hana svo ómerka, að ekki taki að ræða um hana.

Ekkert skal jeg um það fullyrða, hvaða flokkur eða listi stendur bak við kæru þessa. Þó finst mjer ekki ótrúlegt, að hún sje að einhverju leyti runnin undan rifjum sumra þeirra manna, er C-listann studdu, og þá líklega helst þeirra, er Jóni Ólafssyni fylgdu að málum. (Jak. M.:) Þetta er rangt!) Jeg fullyrði heldur ekkert um það. En mjer finst óþarfi af þingmönnum að undrast það, að kæran skyldi fram koma, svo hægt væri að víta það landshneyksli, að nefnd, er semja á kjörskrá, dreymi ekki um í maí allan þann fjölda nýrra manna, sem hljóta að komast á kjörskrá, er ný stjórnarskrá gengur í gildi.

Og þegar svo afglöp slíkrar nefndar eru auðsæ, er stráknum Tuma um kent.

Því vil jeg telja það yfirsjón Alþingis, að hafa ekki í lögum sínum ákvæði, er heimili að refsa mönnum þeim, er afglöp fremja í samningi kjörskráa, eins og t. d. hefir átt sjer stað við undirbúning þessarar kosningar, sem yfir er kært. Vildi jeg þessvegna að því styðja, að hægt væri að sækja slíka menn til sekta, að þeir yrðu t.d. látnir greiða alt að 20 þús. krónum, er þeir hafa sýnt að þeir eru ekki starfinu vaxnir. Slíkir menn seilast djúpt í vasa bæjarbúa, og hefðu gott af því að vera refsað fyrir lögleysur sínar og afglöp. Því það ættu menn að skilja, hvorum fremur ber að refsa, þeim, sem vitlausar kjörskrár semja og ólöglegar, eða hinum, sem kjósa eftir slíkum kjörskrám. Enda er það kunnugt orðið, að svo er kastað höndum til við samning kjörskránna, að margir, sem á þeim eiga að vera, finnast þar ekki, en aðrir innskráðir, sem engan rjett hafa til að vera þar.

Það er svo kunnugt hjer í Reykjavík, að ábyrgðarlausir glamrarar, sem í nefndum sitja, láta sig engu varða rjett einstaklinga og hirða ekkert um, þótt brotin sjeu lög landsins og að engu höfð. Því er maklegt, að slíkir menn verði fyrir refsingu og þeir sjeu víttir.

Hinsvegar skil jeg líka þá þm., sem taka vilja gilda kosningu þessa, þótt ólögleg sje, svo ekki komi niður á saklausum mönnum og að kjördæmið sje þingmannslaust um tíma.

Jeg vil heldur ekki refsa þeim mönnum, sem jeg veit að enga sök eiga á lögleysum þessum, en jeg heimta að hart sje gengið að þeim seku, og að kjörskrárnefndinni verði engin grið seld.

Jeg þykist sjá, að slík áskorun muni þegar komin fram, og þykir mjer vænt um það. Fyrir mjer er aðalatriðið, að þetta geti ekki endurtekið sig oftar.

Mjer er þegar kunnugt hvernig máli þessu muni lykta. Jeg veit það um hugi margra hv. þm., að jeg þykist mega fullyrða, að kosningin verði tekin gild.

En þrátt fyrir það var það nauðsynlegt að kæra þessi kom fram, eins og jeg hefi þegar bent á. Og minna hefði mátt stjórnina á fleiri atriði í þessu sambandi en nefnd voru, eða hverju myndi það sœta, hvernig menn leyfa sjer að fara með lög og rjett þessarar þjóðar?

En hjer varð fljótt yfir sögu að fara, enda þykist jeg hafa orðið við ósk þess háttvirts þm., sem mæltist til við mig í upphafi að vera stuttorður.