02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

59. mál, sóknargjöld

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hæstv. forsrh. (J. M.) þótti aðferð nefndarinnar óvenjuleg. Mig minti, að ekki væri langt síðan líkt hefði komið fyrir, og spurði því skrifstofustjóra, en hann kvað þetta hafa komið fyrir nokkrum sinnum. Nefndin tók þessa aðferð af því, að hún taldi hana hagkvæmari.

Eins og nú er, verður að bera hækkun undir safnaðarfund í hvert skifti. Þetta er betra að sleppa við og hækka gjaldið í lögunum. Nefndin slepti 25 aurum af því, er frv. stjórnarinnar fór fram á, því að henni virtist þetta nægja. Veit jeg ekki til, að neinstaðar hafi þurft að hækka meira en þetta.

Það, sem hæstv. forsrh. (J. M.) talaði um fjárhagsnefnd og allsherjarnefnd í sambandi við frv., getur vel verið rjett, en nefndin varð að taka afstöðu til alls frv., úr því að því var vísað til hennar. Nú gat nefndin ekki aðhylst tvöfalda innheimtu á ekki hærra gjaldi. Niðurjöfnun aukaútsvara er ekki svo rjettlát alstaðar, að nein fyrirmynd sje, en á henni átti að byggja við niðurjöfnun prestsgjaldsins, þess hlutans, sem ekki er tekinn sem nefskattur. Lá þá ekki eins beint við að taka gjaldið sem hundraðsgjald af aukaútsvörum.

Nefndin vildi láta sóknargjöld til presta standa óbreytt, eins og þau nú eru, en láta ríkissjóð gjalda það, sem til vantar í laun þeirra. Jeg hygg, að sú hafi verið tilætlun Alþingis, er það hækkaði laun prestanna, um leið og laun annara embættismanna voru hækkuð, en hitt kemur mjer ekki á óvart, að nú þyki hafa verið nóg aðgert á þinginu 1919, með hækkun á launum embættis- og starfsmanna ríkisins, og reynt sje að losa ríkissjóð við eitthvað af þeim böggum, er honum voru þá bundnir.